Þórey Sigmundsdóttir

ThoreySigmundsdottirOgKristjanHansenLitil

Hjónin Kristján Hansen og Þórey Sigmundsdóttir

Þórey var þriðja barn þeirra hjóna, Sigmundar Jónssonar og Guðrúnar Ingibjargar Sigfúsdóttur. Hún var fædd 1. september 1886 í Gunnhildargerði í Hróarstungu og ólst þar upp hjá foreldrum sínum.
Þórey var í meðallagi há og svaraði sér vel, litfríð og ljóhærð, hárið hrokkið og fór vel. Andlitið var frítt, augun blá og svipurinn djarflegur enda hreinlynd og einörð. Nokkuð var hún skaprík og stóð fast á skoðunum sínum og lét ógjarnan hlut sinn ef í kappmæli sló. Hún var spaugsöm og glettin, skaut þá gjarnan hökunni fram og komu hýruglampar í augun og var hlátur hennar afar smitandi.
Í æsku hafði Þórey hið mesta gaman af að vera úti við með föður sínum, einkum við fé. Var og afar kært með þeim. Þórey var fjárglögg í besta lagi enda sjónnæm. Hún var og fljót að læra á bók. Fékkst hún allmikið við barnakennslu, bæði á Völlum og í Tungu á árunum 1900-1907. 1)

Veturinn 1907-1908 stundaði Þórey nám við mjólkurfræðiskóla Grönfeldts á Hvítárvöllum. Réðst hún svo um vorið bústýra að rjómabúinu að Gljúfuráreyrum í Skagafirði. Þá um sumarið kynntist hún mannsefni sínu, Kristjáni Hansen á Sauðá í Sauðárhreppi. Kristján hét fullu nafni Hans Kristján og var hann fæddur á Sauðá 18. október 1885. Hann var þriðja barn þeirra Sauðárhjóna, Christians Hansen, f. 9. mars 1856 á Amager við Kaupmannahöfn, d. 11. apríl 1930 á Sauðárkróki, og konu hans, Bjargar Jóhannesdóttur Hansen, f. 29. nóvember 1861 að Garði í Hegranesi, d. 8. febrúar 1940 á Sauðárkróki. 2)

Veturinn 1908-1909 kenndi Þórey í heimasveit sinni, Hróarstungu. Var skólinn í Gunnhildargerði fyrrihluta vetrar en seinnipartinn í Dagverðargerði.

Kristján kom svo austur um vorið og giftu þau sig á Hjaltastað 8. október þá um haustið. Veturinn eftir voru Þórey og Kristján í Gunnhildargerði en fóru svo að Sleðbrjót í Jökulsárhlíð vorið 1910 til Bjargar, systur Þóreyjar, og manns hennar, Stefáns. Þar voru þau til vors 1911 er þau fluttu til Sauðárkróks.

Fyrst í stað bjuggu þau á Sauðá hjá foreldrum Kristjáns en fengu svo leigt í Kirkjuhvoli (Skógargötu 15) og bjuggu þar um nokkurt skeið.

Árið 1915 keyptu þau Brimgarð, lítið timburhús sem stóð við Aðalgötu. Það fluttu þau þangað sem það stendur enn, rétt sunnan og ofan við Kirkjuna. Það er Skógargata 17 B. 3) Í þessu húsi bjuggu þau síðan.

Kristján var vegaverkstjóri í Skagafirði um árabil og sláturhússtjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Hann var í stjórn Kaupfélagsins frá 1938 til dauðadags.

Þeim Þóreyju og Kristjáni varð ekki barna auðið en tóku kjördóttur, Gunnhildi Hansen, systurdóttur Kristjáns. Hún var fædd á Sauðá 2. janúar 1922.

Oft var gestkvæmt og glatt á hjalla hjá þeim hjónum á Skógargötunni enda bæði vinsæl og vel látin.

Þórey var hög í höndum og myndarleg húsmóðir. Hún var bókelsk og las mikið, ættfróð og kunni býsnin af vísum, sögum, ævintýrum og ýmsum fróðleik. Mun margt af því hafa týnst með henni og nú hvergi til. – Hún sagði ágætlega frá en einhver besta skemmtun hennar var að kveðast á. Voru fáir sem stóðust henni snúning í þeirri íþrótt.

Skáld og hagyrðingar voru í miklu uppáhaldi hjá Þóreyju og eignaðist hún marga vini meðal þeirra í Skagafirði. Einn þeirra, Gísli Eiríksson skáld frá Eiríksstöðum, kvað svo til hennar sjötugrar:

Þér eru landsins ljóðin kunn
lengi fjærri og nærri.
Veit ég engann vísnabrunn
vera öllu stærri.

Vannstu hvert þitt vandaspil
vinum kær í ranni.
Fræðslu, göfgi, gleði og yl
gafstu hverjum manni. 4)

Árið 1934 fékk Þórey heilaáfall og náði hún sér aldrei að fullu eftir það.

Kristján, maður Þóreyjar, lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 26. maí 1943.

Gunnhildur, kjördóttir þeirra, giftist Árna M. Jónssyni verslunarmanni á Sauðárkróki árið 1945 og bjuggu þau eftir það öll þrjú saman á Skógargötunni.

Þau Gunnhildur og Árni voru barnlaus en Gunnhildur dó langt fyrir aldur fram, 25. nóvember 1957 á Sauðárkróki.

Þórey bjó áfram með Árna tengdasyni sínum eftir lát Gunnhildar og reyndist hann henni einstakur drengur til hinstu stundar.

Hún andaðist 2. nóvember 1963 á Sauðárkróki.

Heimasæturnar í Gerði

Fimm í gerði Gunnhildar
glansa heimasætur
sóma vafðar, svanfagrar
Sigmunds bónda dætur

Guðrún, Björg, og Þórey þýð,
þroskast fagrar drósir.
Anna og Katrín, ljófar lýð
líkt og vorsins rósir.

Símon Bjarnarson Dalaskáld (Líklega ort 1893 eða 1894, áður en Guðlaug fæðist)

  1. Sjá Kennaratal á Íslandi II, Reykjavík 1965, bls. 305-306.
  2. Sjá Skagfirzkar æviskrár III, Akureyri 1968, bls. 45-47.
  3. Sjá Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks, fyrri hluti, útg. 1964, bls. 201.
  4. Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum: Í landvari. Akureyri 1960, bls. 57.

 

1c Þórey Sigmundsdóttir Hansen, fædd 1. september 1886 í Gunnhildargerði, dáin 2. nóvember 1963 á Sauðárkróki, húsfreyja Sauðárkróki. – Maki 8. október 1909. Hans Kristján Hansen, fæddur 18. október 1885 á Sauðá í Borgarsveit, dáinn 26. maí 1943 á Sauðárkróki, vegaverkstjóri í Skagafirði um árabil. Foreldrar: Christian Hansen, beykir og bóndi á Sauðá í Borgarsveit, fæddur 9. mars 1856, dáinn 11. apríl 1930, og kona hans Björg Jóhannesdóttir Hansen fædd 29. nóvember 1861, dáin 8. febrúar 1940. Barnlaus. Kjördóttir þeirra: Gunnhildur Hansen, fædd 2. janúar 1922.