Jón Sigmundsson

JonSigmundssonOgAnnaOlafsdottirLitil

Hjónin Anna Ólafsdóttir og Jón Sigmundsson

Jón var fæddur 25. október 1898 í Gunnhildargerði, sonur hjónanna Guðrúnar Ingibjargar Sigfúsdóttur og Sigmundar Jónssonar. Hann var næstyngsta barn þeirra hjóna og ólst upp í föðurgarði ásamt systkinum sínum. Hann fór fljótt að taka þátt í störfum heimilisins að þeirrar tíðar hætti eins og hin systkinin. Á bernsku- og æskuárum Jóns giftust systur hans og stofnuðu sín heimili, svo það kom í hlut hans og bræðra hans að aðstoða foreldra þeirra við búskapinn, þegar heilsu Sigmundar tók að hnigna og aldur að færast yfir þau hjónin.

Árið 1919 var Sigmundur svo farinn að heilsu að Eiríkur tók við búsforráðum en móðir hans stjórnaði innanstokks. Yngri bræðurnir, Jón og Sigfús, aðstoðuðu þau dyggilega, einnig Katrín, sem lengst var heima af systrunum. Það kom sér vel að fjölskyldan var samhent, því jafnframt því að halda búskapnum í horfinu og fylgjast með breyttum tímum á aldarmorgni, hnignaði heilsu Sigmundar svo mikið, að síðustu ár hans þurfti hann á mikilli umönnun og hjúkrun að halda, sem fjölskyldan var samtaka um að veita með ljúfu geði.

Í æsku naut Jón ekki annarrar fræðslu en þeirrar, sem heimilið veitti, og kennslu hjá heimiliskennurum, sem fengnir voru að Gunnhildargerði til þess að kenna börnunum um tíma hvern vetur. Jón bar æ síðan hlýhug til þessara kennara og minntist þeirra með þökk og virðingu.

Eftir fermingu var Jón við störf vetrarlangt á heimili Bjargar systur sinnar á Sleðbrjót og annan vetur litlu síðar á Hrærekslæk. Þetta er eini tíminn, sem hann var ekki í Gunnhildargerði, þegar frá er talin banalega hans á sjúkrahúsi í Reykjavík.

Árið 1925 létust þau hjónin í Gunnhildargerði og Eiríkur brá búi vorið eftir. Það sama vor hóf Jón búskap í Gunnhildargerði og kvæntist konu sinni, Önnu, hinn 10. júlí 1926. Anna er dóttir hjónanna Ólafs Bessasonar, sem lengi bjó á Birnufelli í Fellum, og konu hans, Þórunnar Kristrúnar Bjarnadóttur frá Hafrafelli í sömu sveit. Ólafur var fæddur hinn 5. ágúst 1878 á Birnufelli og þar lézt hann 28. maí 1954. Þórunn var fædd á Hafrafelli hinn 9. maí 1870 og hún lést 9. desember 1907 á Birnufelli frá þrem ungum dætrum og kom það því í hlut Ólafs að annast uppeldi þeirra. Anna er greind mannkostakona, sem reyndist manni sínum traustur lífsförunautur. Þau eignuðust átta börn, sem öll komust upp og eru hér talin í aldursröð: Margrét 1927, Guðrún Ingibjörg 1928, Sigmundur Þráinn 1930, Þórunn Kristbjörg 1932, Ólafur Heiðar 1934, Sesselja Hildigunnur 1936, Soffía Hrafnhildur 1939 og Jóndóra Elsabet 1947.

Þegar ungu hjónin hófu búskap höfðu þau eignast allgóðan bústofn og reyndust þau samhent um að sjá búi sínu borgið og stækka það eins og kostur var og jarðnæðið leyfði. Aðalbústofninn var sauðfé og var svo alla búskapartíð þeirra hjóna. Fjárbúskapur átti vel við Jón. Hann var fjárglöggur og gerði sér far um að hirða vel um fé sitt og kynbæta það svo það gæfi sem beztan arð. Annar búpeningur var lítið meiri en til heimilisþarfa og sama var að segja um garðrækt. Jón gætti þess vel að eiga alltaf nóg hey og nægar birgðir matar fyrir fé sitt og fólk, enda komst heimilið aldrei í bjargarþrot, jafnvel ekki á harðindaárum. Jóni var alla tíð mikið í mun að vera vel sjálfsbjarga, búa að sínu og sækja sem minnst til annarra, þó hann væri í eðli sínu greiðvikinn og hjálpsamur eins og sveitungar hans. Hann hafði af því mikla ánægju þegar gesti bar að garði og vildi fagna þeim vel.

Þeim hjónunum búnaðist vel, einkum framan af árum. Þau byrjuðu með því að ráða hjú til aðstoðar við búskapinn. En þegar kom fram á 4. áratug aldarinnar, á hinum svonefndu kreppuárum, þyngdist róðurinn, einyrkjabúskapurinn tók við og barnahópurinn stækkaði óðum. Öllu tókst þó að halda í horfinu, en það kostaði mikið erfiði.

Eins og fyrr segir var það ríkur þáttur í skapgerð Jóns að vera sjálfbjarga, ekki upp á aðra kominn og skulda engum. Sem dæmi um það má nefna, að hann var einn fárra bænda, sem ekki gerðust félagar í hinum svonefnda Kreppulánasjóði, sem stofnaður var á þessum árum og flestir bændur gerðust aðilar að, og fengu með því stóran hluta skulda sinna af skrifaðan eftir því sem tímar liðu.

Þegar kreppuárin voru að baki og hagur þjóðarinnar tók að vænkast í lok fjórða áratugarins, hófst Jón handa um að bæta jörð sína og bústofn eftir mætti, enda fóru börnin þá að verða liðtæk við búskapinn. Hann festi kaup á Gunnhildargerði árið 1943 og litlu síðar nágrannabænum Nefbjarnarstöðum og nytjaði hálflenduna þar í þrjú ár en eftir það hafði hann alla jörðina undir. Frá fyrstu búskaparárum sínum sléttaði Jón ár hvert væna spildu í túninu með handverkfærum einum saman. Þegar kom fram á fimmta áratuginn komu stórvirk jarðvinnslutæki til sögunnar og tók Jón þau í sína þjónustu, svo brátt varð túnið allt slétt, og óræktað land var brotið til ræktunar. Árið 1947 byggðu þau Gunnhildargerðishjón steinsteypt íbúðarhús á jörð sinni og næstu ár þar á eftir peningshús, einnig úr sama efni. Áfram var unnið að ræktun og búvélar fengnar til þess að auðvelda störfin. Fullyrða má því að þau hjónin Jón og Anna hafi skilað drjúgu og góðu dagsverki þegar Jón féll frá hinn 18. maí 1957 eftir þungbær veikindi. Eins og ljóst er af framansögðu þá varð hlutskipti Jóns starf bóndans. Hvort sem það var vegna ytri aðstæðna eða af sérstakri köllun, verður ekkert fullyrt um hér. En víst er að hið krefjandi starf bóndans, sjálfstæði þess, náið samband og átök við náttúruöflin, ásamt umgengni við búpening veitti honum ánægju og lífsfyllingu . Enda gekk hann ætíð að starfi af kappi, heill og óskiptur. Með sama hætti gekk hann til móts við örlög sín og allt það, sem mætti honum á lífsleiðinni. Það var ekki að hans skapi að æðrast eða víkja sér undan því sem að höndum bar.

Sveitungi Jóns og frændi, Sigurjón Þórarinsson bóndi á Brekku, skrifaði minningargrein um hann látinn, sem birtist í Morgunblaðinu hinn 28. júlí 1957. Þar segir m.a.: „Hér verður fátt eitt talið, sem um Jón í Gunnhildargerði mætti segja. Hann var maður, sem kappkostaði að breyta í öllu rétt. Hann var einarður maður og hreinskilinn, og ef honum fannst sér gert rangt til, þá sagði hann það umbúðalaust og ég held að honum hafi þótt vænt um að aðrir gerðu slíkt hið sama, þar sem hann átti hlut að máli, ef þeir þættust hafa yfir einhverju að kvarta. Það er gott að minnast manna eins og Jóns Sigmundssonar, en sársaukalaust er það ekki að sjá þeim á bak.“

Nágranni Jóns um langt árabil, hinn gáfaði prestur Sigurjón Jónsson á Kirkjubæ, jarðsöng hann og verður óstyttur kafli úr útfararræðu séra Sigurjóns lokaorð þessarar greinar. Þar segir á þessa leið:
„Þótt Jón sækti fast fram á starfssviði lífsins þá hirti hann lítt um að trana sér fram til að sækjast eftir mannvirðingum. Og margur hefur fengið heiðursviðurkenningu fyrir minni afrek, mannkosti og greind en hann. En hann fór sínar eigin götur og hirti lítt um það hvort öðrum líkaði betur eða verr ef hann taldi sig hafa lög og rétt að mæla. Fyrir því varð hann aldrei leiksoppur í höndum annarra og allra síst þeirra manna, sem fóru með áróður í þágu falskra þjóðfélagsfræða. Hann var of hjartahreinn til þess að geta gert blekkinguna jafngilda verðleikanum og ósannindi eins rétthá og sannleika, eða jafnvel rétthærri. Yfir bleikri ásjónu hans ætti að standa gullnum stöfum fyrirheitið fagra „Sælir eru hjartahreinir, því þeir munu Guð sjá“ Jón var annars léttur í lund og skemmtilegur, hafði næmt eyra fyrir því skoplega við menn og málefni, en með því hugði hann þó aldrei á mannskemmdir. Heldur notaði hann húmor sinn til að framkalla bros og saklausa gleði. En af slíku er aldrei of mikið í heiminum, því saklaus gleði felur í sér læknisdóm við mörgum meinum. Hinsvegar var hann geðríkur tilfinningamaður að eðlisfari. En svo er oft um ákafamenn í starfi og stríði lífsins. En fljótur var hann og fús til sátta ef í odda skarst.

Að ytra útliti var Jón allur hinn gjörvulegasti og bar með sér hinn hreina og fagra svip ættarinnar. Hann var trúr öllum þeim, sem hann batt vinfengi við, og einnig þeim, sem ekki áttu samleið með honum í öllum málum. Fyrir því naut hann almennra vinsælda og virðingar í sveit sinni og héraði. Auk þess var hann sterk persóna gædd þreki og mikilli hetjulund. Sást það bezt hversu vel hann bar vanmátt sinn í hinni löngu sjúkdómslegu. Alltaf kvað hann sér líða vel, þótt vitað væri að hann var oft sárþjáður og léttlyndi sínu hélt hann fram til þess tíma að hann mátti eigi lengur mæla. Það er einhversstaðar sagt að „því auðugri, sem við séum af drenglund, vizku, sannleiksást og kærleika, því betur séum við undirbúin að leggja út á djúpið í hina hinztu för.“ Ég er þess fullviss eftir 36 ára kynni mín við hinn látna vin að hann átti þennan auð í ríkum mæli. Fyrir því var hann vel búinn undir ferðina.“

li Jón Sigmundsson, f. 25. okt. 1898 í Gunnhildargerði, d. 18. maí 1957 í Rvík, bóndi í Gunnhildargerði. – K. 10. júlí 1926, Anna Ólafsdóttir, f. 29. ágúst 1902 á Birnufelli í Fellum, hfr. í Gunnhildargerði. For.: Ólafur Bessason, f. 5. ágúst 1878, d. 28. maí 1954, og k.h. Þórunn Kristrún Bjarnadóttir, f. 9. maí 1870, d. 9. des. 1907. Börn þeirra: a) Margrét,f. 30. maí 1927, b) Guðrún Ingibjörg, f. 18.okt. 1928, c) Sigmundur Þráinn, f. 5. okt.1930, d) Þórunn Kristbjörg, f. 28. maí 1932, e)Ólafur Heiðar, f. 25. nóv. 1934, f) Sesselja Hildigunnur, f. 4. nóv. 1936, g) Soffía Hrafnhildur, f. 15. ágúst 1939, h) Jóndóra Elsabet,f. 25. maí 1947.