Guðlaug Sigmundsdóttir

GudlaugSigmundsdottirOgPeturSigurdssonLitil

Hjónin Pétur Sigurðsson og Guðlaug Sigmundsdóttir

Guðlaug er fædd í Gunnhildargerði, Hróarstungu, 19. apríl 1895. Hún var yngst 6 systra, bræður hennar voru 4, en einn lést í bernsku. Guðlaug ólst upp í föðurhúsum, en 19 ára aðaldri fór hún til Reykjavíkur og stundaði nám í skóla Hólmfríðar Árnadóttur í einn vetur. Hinn 28. október 1917 giftist hún Pétri Sigurðssyni frá Hjartarstöðum í Eiðaþinghá, þá 21 árs að aldri. Pétur var búfræðingur frá Hvanneyri og stundaði síðan nám um tveggja ára bil við Frederiksborgar-lýðháskólann í Danmörku og sótti einnig fyrirlestra um búfræði í Askov. Eftir heimkomuna réðst hann til Búnaðarsambands Austurlands og fór víða um Hérað að kenna bændum jarðvegsbætur og flutti erindi um búnaðarhætti og fleira. Einnig stundaði hann barnakennslu á vetrum. Ungu hjónin voru fyrsta veturinn í Gunnhildargerði en hófu síðan búskap að Hallfreðarstöðum í Tungu. Þar voru þau í tvö ár. Næstu tvö árin bjuggu þau á Litla-Steinsvaði í sömu sveit. Þá fluttu þau að Hjaltastað í Hjaltastaðaþinghá og bjuggu þar næstu 6 árin, þar til jörðin var gerð að læknissetri svo þau urðu að flytjast þaðan. Á Hjaltastað tóku þau hjónin að sér afgreiðslu pósts og síma, lenti sú afgreiðsla að mestu leyti á Guðlaugu og var það mikið álag á konu, sem auk uppeldis þá 7 barna þurfti að annast hin almennu störf sveitakonu þess tíma. Er messað var í Hjaltastaðakirkju veitti Guðlaug kaffi öllum kirkjugestum að messu lokinni. Frá Hjaltastað fluttust þau að Vattarnesi í Fáskrúðsfirði og þar eignuðust þau áttunda barn sitt. Á Vattarnesi bjuggu þau mjög góðu búi til þess tíma er þau fluttust til Reykjavíkur árið 1933. Pétur var þá orðinn heilsulítill. Hann vann þó á sumrin sem vegavinnuverkstjóri hjá Vegagerð ríkisins á ýmsum stöðum á landinu. Síðar vann hann hjá Flugfélagi Íslands um nokkurra ára bil.
Guðlaug og Pétur bjuggu á fjórum stöðum í Reykjavík, áður en þau fluttust á Bergstaðastræti 70*. Þar stofnaði Guðlaug prjónastofu en flutti hana síðan að Tjarnargötu 3.

Gestrisni og greiðasemi þeirra hjóna er öllum kunn sem til þeirra þekktu. Á þessum árum var það algengt að heimilisfólkið viki úr rúmum fyrir gestum utan af landi, sem dvöldust í Reykjavík um lengri eða skemmri tíma sér til lækninga eða af öðrum orsökum.

Árið 1948 í febrúar brann allt húsið á Bergstaðastræti 70, en í því bjuggu Pétur og Guðlaug ásamt heimilisfólki, auk þess bjó Einar sonur þeirra með fjölskyldu sinni þar. Stóðu þau öll eftir allslaus, utan fatanna er þau voru í. Af ótrúlegum dugnaði hófu þau Pétur og Guðlaug ásamt sonum sínum og tengdasyni húsbyggingu í Úthlíð 13, og í það húsnæði fluttist fjölskyldan í desember sama ár. Pétur andaðist 24. febrúar 1955 eftir margra ára erfiða baráttu við ólæknandi sjúkdóm og stunduðu þær Guðlaug og dóttir þeirra Sigríður og tengdadóttir þeirra Sigríður, kona Einars, hann í banalegunni. Sigríður dóttir Guðlaugar og Péturs var  yfirhjúkrunarkona á níunni á Kleppi, í fullu starfi.

Guðlaug seldi íbúð sína í Úthlíð 13 árið 1979 og fluttist nokkru seinna í Dvalarheimili aldraðra við Dalbraut og hefur hún dvalist þar síðan. Guðlaug er fróð og minnug, dugnaður, þrek og lífsorka hennar eru löngu kunn. Nú þegar hún er níræð, vinnur hún enn við ýmsa handavinnu, eftir því sem heilsa og orka leyfir. Þrátt fyrir margs konar erfiðleika á lífsleiðinni, missi manns og þriggja barna, ásamt brunanum, sjúkdómum og fleiru, hefur hún aldrei bugast, heldur vaxið við hverja raun. Hún er vissulega merk og eftirminnileg persóna og öðrum til fyrirmyndar.

1g Guðlaug Sigmundsdóttir, f. 19. apríl 1895 í Gunnhildargerði, Hróarstungu, N.-Múl, lengst af húsfreyja í Rvík. – M. Pétur Sigurðsson, f. 8. janúar 1888 að Hjartarstöðum, Eiðaþinghá, S.-Múl. , d. 24. febr. 1955. For.: Sigurður Magnússon, bóndi á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá, f. 3. apríl 1835, d. 1. mars 1904, og Ragnhildur Einarsdóttir, f. 24. febr. 1854, d. 24. jan. 1927. Börn þeirra: a)Sigríður, f. 18. ágúst 1918, b) Sigrún, f. 13. mars 1920, c) Inga Margrét, f. 8. maí 1921, d)Ragnhildur, f. 6. sept. 1922, e) Einar, f. 2. nóv. 1923, f) Rós, f. 6. júní 1925, g) Bergur Eysteinn, f. 8. des. 1926, h) Bryndís, f. 22. sept. 1928.

*Ránargötu 30, Hverfisgötu 34, Skólavörðustíg 3, Valhöll, Bergstaðar-    stræti 70, Lokastíg 10, Tjarnargötu 3, Úthlíð 13 og Dalbrautinni, þar var Guðlaug ein. Þessar upplýsingar sýna okkur að þetta voru erfið ár hjá þeim með 8 börn. Þau létu tvö frá sér, sem var Guðlaugu ákaflega erfitt. Inga var alin upp á Sleðbrjót og Rós hjá Margréti Sigurðsdóttur föðursystur sinni og Pétri Einarssyni manni hennar.

Guðlaug Sigmundsdóttir- minningarbrot skrásett af Agnesi Siggerði Arnórsdóttur