Eiríkur Sigmundsson

EirikurSigmundssonogBirnaJonsdottirLitil

Hjónin Eiríkur Sigmundsson og Birna Jónsdóttir

Eiríkur hét fullu nafni Kristján Eiríkur Sigmundsson. Hann var fæddur í Gunnhildargerði í Hróarstungu 10. júní 1897 og þar ólst hann upp í stórum systkinahópi hjá foreldrum sínum, þeim Sigmundi Jónssyni og Guðrúnu Ingibjörgu Sigfúsdóttur.
Halldór Pjetursson frá Geirastöðum, æskuvinur Eiríks og leikfélagi, minnist hans svo frá unglingsárum: “Eins og ég man Eika fyrst var hann með hærri unglingum á vöxt, jafnbola og fallegur á velli og bar sig vel, bjartur á hörund og yfir honum eins konar reisn sem ekki var heimatilbúin. Hann sýndist bera það með sér að hann væri vel að manni sem hann átti kyn til:
Andlitsdrættir voru skýrt markaðir, ennið nokkuð hátt, bláeygur og brúnin hvöss. Í æsku var hann ljóshærður en hárið dökknaði með árunum. Hann gekk jafnan hratt og bar sig vel. Halldór segir ennfremur um hann: “Allra manna glaðastur, spaugsamur og fyndinn líkt og móðir hans. Geðið var mikið en glaðvær löngum en fljótur að skipta skapi ef honum fannst sér misboðið. Ekki held ég að Eiki hafi verið hneigður til náms. Hann var þó mjög skýr og athugull, mundi vel það sem hann heyrði og las, sagði með afbrigðum vel frá og skipulega. Hvort hann var búmannsefni vil ég ekkert um segja en öllu vildi hann viðhalda og nýta. . . mín hyggja er sú að snemma hafi hann sett sér að verða sjálfstæður maður og búa að sínu og vera ekki öðrum háður.” 1)

Eiríkur tók við búi í Gunnhildargerði vorið 1919. Sigmundur faðir hans var þá orðinn heilsulaus og þurfti mikla umönnun en Guðrún, móðir Eiríks, sá áfram um húshald innan stokks. Bræður hans, Jón og Sigfús, unnu einnig heimilinu og höfðu þar fé á fóðrum. Þá var Katrín systir þeirra líka heima fyrst í stað og var hún einkar nærfærin við föður sinn.
Hún gifti sig svo og fór að heiman um mitt sumar 1922.
Þeir bræður önnuðust svo föður sinn seinustu árin en hann dó 18. janúar 1925 og Guðrún móðir þeirra 8. ágúst sama ár.

Vorið eftir, 1926, brá Eiríkur búi í Gunnhildargerði og leigði Jóni bróður sínum jörðina. Sjálfur réðst hann þá um sumarið í vegavinnu til Skagafjarðar. Þar kynntist hann konuefni sínu, Birnu Jónsdóttur á Grófargili í Seyluhreppi. Birna er fædd 18. nóvember árið 1905, dóttir hjónanna Jóns Benediktssonar og Sigurlaugar Brynjólfsdóttur frá Sveinsstöðum. Jón lést 17. maí 1924 en Sigurlaug bjó áfram á Grófargili með dætrum sínum fjórum.
Hún dó á Sauðárkróki 13. apríl 1966.

Þau Eiríkur og Birna giftust 5. janúar 1928 og fóru að búa á Grófargili þá um vorið. Þar eignuðust þau fjögur börn. Elstur er Jón Sigurður, f. 8. janúar 1929, þá er Guðrún Ingibjörg, f. 28. apríl 1930, Sigurlaug Brynhildur, f. 11. desember 1931 og Sigmundur Vigfús, f. 15. febrúar 1933.

Á Grófargili hafði löngum verið áningarstaður fólks framan úr sveit á leið sinni í og úr kaupstað á Sauðárkróki. Hélst það á búskaparárum Eiríks og Birnu. Var þá kominn bílfær vegur frá Sauðárkróki og fram að Grófargilsá en hún enn óbrúuð og allmikill farartálmi bílum. Var því ærið gestkvæmt hjá þeim á þessum árum og oft glatt í bæ.
Þeim hjónum búnaðist allvel á Grófargili þrátt fyrir mikla ómegð og annríki.

Veturinn 1934 keyptu þau jörðina Reyki á Reykjaströnd og fóru þangað búferlum á fardögum um vorið. Þar urðu þau fyrir ýmsum áföllum í búskapnum. Lungnadrep kom t.d. upp í fénu fyrsta árið sem þau bjuggu þar og misstu þau mikinn hluta bústofnsins. Slíkt kom að vonum illa við einyrkja á fyrstu árum kreppunnar. Verra var þó að heilsu Eiríks fór nú hrakandi en hann hafði snemma kennt sér heilsubrests. Tók hann nú illa að þola átök og erfiði og var oft frá vinnu af þeim sökum. Búskapurinn mæddi þá tíðum mjög á húsfreyjunni og fljótlega einnig börnunum þegar þrek og þroski leyfði.

Vorið 1939 fluttu þau hjón að Hólakoti á Reykjaströnd og bjuggu þar til 1943 en þá um vorið fóru þau búferlum að næsta bæ, Fagranesi. Þar fæddist yngsta barn þeirra, Kristján Þórarinn, 19. nóvember 1945.

Eiríkur var snyrtilegur bóndi og þoldi illa allt hirðuleysi og slóðaskap. Hann gerði sjálfur við flest það sem bilaði og aflaga fór og smíðaði ýmislegt í þarfir búsins. Hélt hann og vel við húsum og bætti á ýmsa lund enda hafði hann alla tíð gaman af smíðum. Fljótlega eftir að Eiríkur og Birna komu að Fagranesi byggðu þau þar íbúðarhús en gamli bærinn var þá orðinn mjög lélegur. Fluttu þau í það haustið 1945. Það var fyrsta steinhúsið á Ströndinni.
Eiríkur var fremur natinn við skepnur og einkar laginn að vinna með hesta. Hann fékk sér hestasláttuvél annað sumarið sem hann var á Reykjum og var hún sú fyrsta sem keypt var þar í sveit. Garðrækt stundaði Eiríkur alltaf nokkra og hafði ætíð nóg til heimilis að leggja af jarðávöxtum.

Á Ströndinni höfðu menn löngum byggt nokkuð á fiskifangi. Sótti Eiríkur sjóinn eins og þar var títt, einkum framan af en síðan tóku eldri synir hans, þeir Jón og Sigmundur, við.
Réri hann bæði til fiskjar og lagði fyrir hrognkelsi á vorin, hafði og hið mesta yndi af öllum veiðiskap.

Eins og fyrr segir var Eiríkur glaðsinna og fyndinn. Hafði hann næmt auga fyrir því spaugilega í fari náungans og átti hægt með að ná látbragði og rödd fólks. Allt var það þó græskulaust.

Eiríkur hafði gaman af að tefla og var góður skákmaður. Var hann kappsamur í skákinni sem öðru, fljótur að leika og tefldi hvasst. Sökkti hann sér oft svo niður í taflið að hann gætti einskis þess er fram fór í kringum hann.
Þau Eiríkur og Birna bjuggu á Fagranesi í nær tuttugu ár en Eiríkur andaðist á Landspítalanum í Reykjavík 10. október 1964, 67 ára að aldri. Hann er jarðaður á Sauðárkróki.

lh Kristján Eiríkur Sigmundsson, f. 10. júní 1897 í Gunnhildargerði í Hróarstungu, d. 10. okt. 1964 í Rvík, bóndi á Fagranesi á Reykjaströnd, Skag. og víðar. – K. 5. jan. 1928 Birna Jónsdóttir, f. 18. nóv. 1905 á Grófargili, hfr. á Sauðárkróki. For.: Jón Benediktsson, bóndi á Grófargili, f. 3. júlí 1872, d. 17. maí 1924 og Sigurlaug Brynjólfsdóttir, f. 3. júlí 1869, d. 13. apríl 1966. Börn þeirra: a) Jón Sigurður, f. 8. jan. 1929, b) Guðrún Ingibjörg, f. 28. apríl 1930, c) Sigurlaug Brynhildur, f. 11. des. 1931, d) Sigmundur Vigfús, f. 15. febr. 1933, e) Kristján Þórarinn, f. 19. nóv. 1945.