Sigfús Björgvin Sigmundsson

SigfusSigmundssonOgAnnaFrimannsdottirOgBaldurLitil

Hjónin Anna G. Frímannsdóttir og Sigfús B. Sigmundsson ásamt elsta synir þeirra Baldri

Sigfús fæddist 11. apríl 1905 og var yngstur tíu barna Guðrúnar og Sigmundar í Gunnhildargerði. Eins og systkini hans tók hann frá barnsaldri þátt í bústörfum heima. Sigfús varð snemma læs, var sagt til heima, en var síðar tvo vetur á farskóla, tvo mánuði á vetri. Fullnaðarpróf úr barnaskóla var hann látinn taka vorið 1918, einum vetri fyrr en vera átti, til að hann gæti hirt gripi heima næsta vetur.

Árið 1919 tók til starfa unglingaskóli á Eiðum, hinn fyrsti á Héraði. Aðsókn að skólanum varð strax mikil, og þurfti Sigfús að bíða skólavistar til hausts 1923. Til undirbúnings náminu á Eiðaskóla fór hann einn vetrarmánuð að Kirkjubæ, þar sem hann naut tilsagnar séra Sigurjóns Jónssonar, einkum í íslenzku, ensku og reikningi. Sigfús útskrifaðist frá Eiðaskóla vorið 1925 með góðum vitnisburði. Kynni hans af séra Sigurjóni, séra Ásmundi Guðmundssyni skólastjóra, öðrum kennurum og skólasystkinum á Eiðum höfðu varanleg áhrif á hann til mótunar.

Þegar Eiríkur bróðir hans tók við búi í Gunnhildargerði af foreldrum sínum árið 1919, gerðist Sigfús vinnumaður hjá honum. Síðan starfaði Sigfús þar heima til hausts 1925, að undanskildum vetrunum á Eiðaskóla. Fyrstu kennslustörf sín hóf hann í Hróarstunguhreppi veturinn 1925-26. Veturna 1927-28 og 1928-29 var hann kennari í Vallahreppi, en sumarið 1928 í kaupavinnu. Sumarið 1929 var Sigfús við vegavinnustörf í Skagafirði eins og hann hafði verið sumarið 1926. Hann lærði að aka bíl á Sauðárkróki hjá mági sínum, Kristjáni Hansen, tók síðan bílpróf snemma árs 1930.

SigfusSigmundssoneldriLitil

Sigfús B. Sigmundsson um þrítugt

Í janúar 1930 réðst Sigfús til vertíðarvinnu í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir erfitt atvinnuástand í Reykjavík fékk hann vinnu þar við húsbyggingar um vorið og síðar við að reisa útvarpsstengur á Vatnsendahæð. Um sumarið tók hann þátt í Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Vegna vinnuslyss fór Sigfús aftur austur á Hérað síðla sumars 1930, málaði kirkjuna á Kirkjubæ og kenndi þar til jóla. Vorið 1931 fylgdi hann mági sínum, Stefáni bónda á Sleðbrjót, sjúkum til Reykjavíkur, og dó Stefán þar á spítala um sumarið. Veturinn 1931-32 var Sigfús heimiliskennari í Breiðholti við Reykjavík. Sumarið 1932 heyjaði hann við annan mann túnið og vellina á Þingvöllum „í akkorði“. Þá fann hann fyrst verulega fyrir því að hann þoldi illa líkamlegt erfiði. Eftir skoðun og rannsókn mælti Helgi Ingvarsson, læknir á Vífilsstöðum, gegn því að Sigfús ynni erfiðisvinnu vegna skemmda í hryggnum. Ákvað Sigfús þá að hefja skólagöngu á ný, eftir sjö ára hlé. Varð Kennaraskólinn fyrir valinu, mest vegna fyrri reynslu hans af kennslu. Hann stundaði þar nám í tvo vetur og útskrifaðist kennari vorið 1934. Fjárhagur Sigfúsar var mjög naumur seinni veturinn í Kennaraskólanum, en þá varð hann að kenna tvo tíma á dag með náminu til að komast af. Peningalán var hvergi að fá á þessum tíma.

Haustið 1934 réðst Sigfús stunda- og forfallakennari við barnaskóla Reykjavíkur. Kenndi hann þá m.a. svonefndum „vandræðabörnum“, sem voru á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þessi kennsla tókst vonum framar og stuðlaði það að því, að hann hlaut fasta stöðu við Miðbæjarskólann næsta vetur. Slíkt þótti verulegt happ á þessum tíma. Við þennan skóla kenndi Sigfús til ársins 1969, er rekstri hans var hætt, að undanteknu veikindaleyfi í þrjú ár 1941-44.

IMG_5043_litil

Blönduhlíð 31 í Reykjavík – Myndin er tekin árið 1985

Árið 1935 hófust kynni Sigfúsar og þeirrar konu, sem hann kvæntist síðar. Anna Guðrún Frímannsdóttir er Eyfirðingur að uppruna, fædd 20. apríl 1912, næstyngst fjögurra barna Frímanns bónda Guðmundssonar að Efstalandi í Öxnadal og eiginkonu hans, Margrétar Jónsdóttur. Anna hafði líkt og Sigfús alizt upp við vinnusemi á bernskuheimili í sveit. Hún hafði misst föður sinn 14 ára gömul, farið að heiman 17 ára og séð fyrir sér sjálf eftir það. Hún var í vist á vetrum og kaupavinnu á sumrum. Nám í Kvennaskólanum á Blönduósi veturinn 1932-33, undir stjórn frú Huldu Stefánsdóttur, reyndist Önnu notadrjúgt veganesti síðar á ævinni. Eftir hálfs þriðja árs vist að Möðruvöllum í Hörgárdal hélt Anna til starfa í Reykjavík haustið 1935. Bróðir hennar, Guðmundur, stundaði þá nám í Kennaraskólanum. Bauð hann systur sinni á skemmtisamkomur í skólanum, og þar kynntist Anna Sigfúsi, mannsefni sínu. Þau giftu sig 13. janúar 1938 og stofnuðu heimili að Mánagötu 13 í Reykjavik. Elzti sonurinn, Baldur Frímann, fæddist rúmu ári síðar. Þá bjó fjölskyldan á Laufásvegi 18.

Í kennsluhléi á sumrin árin 1937-40 var Sigfús flokksstjóri unglinga úr Reykjavík, sem unnu við vegagerð í Þingvallasveit. Hann veiktist svo og var rúmfastur á Landspítalanum árin 1941-44 vegna berkla í hrygg. Afkoma heimilisins var þá verulega komin undir vinnu Önnu heima og tekjuöflun hennar af saumum. Nærri má geta, að þetta varð fjölskyldunni erfiður reynslutími, auk þess sem heimsstyrjöldin siðari skapaði viðsjált ástand í Reykjavík á þessum árum. Sigfús hafði umtalsverðar tekjur af verkefnum, sem hann vann að, rúmfastur á spítalanum. Þessar tekjur m.a. gerðu honum kleift að festa kaup á tveggja herbergja íbúð á Rauðarárstíg 5. Þar fæddist annar sonurinn, Sigmundur, 1945, og hinn yngsti, Rúnar Ingimar, fæddist árið 1949.

IMG_5056_litil

Séð til suðurs frá Gunnhildargerði. Sigfús B. Sigmundsson fremst á myndinni

Föst kennaralaun Sigfúsar dugðu aldrei ein til framfæris fjölskyldunnar, og hafði hann alla tíð launuð aukastörf á hendi. Bæði veitti hann forstöðu barnalesstofu á vegum Bæjarbókasafns Reykjavíkur árin 1947-75 og kenndi í forföllum annarra. Vinnudagur var oft langur. Afkoma heimilisins byggðist einnig verulega á þeim tekjum, sem Anna aflaði með saumum, sem hún stundaði heima jafnframt annasömu heimilisstarfi . Þótt Sigfús gengi aldrei heill til skógar eftir veikindin á stríðsárunum, gátu þau hjónin með elju og sparsemi stækkað við sig húsnæði árið 1950, en þá flutti fjölskyldan í fimm herberga íbúð í Blönduhlíð 31, Reykjavík. Ennfremur studdu þau synina til framhaldsnáms, en þeir hafa allir lokið háskólanámi og stofnað eigin fjölskyldur.
Síðustu starfsárin 1969-75, kenndi Sigfús við Austurbæjarskólann í Reykjavík. Hann og samkennarar hans við Miðbæjarskólann söknuðu farsællar stofnunar, sem hafði nánast fyrirvaralaust verið lögð niður af yfirvöldum menntamála vorið 1969.

Við störf sín var Sigfús þekktur að því að halda stjórn á nemendum bæði í kennslustundum og utan þeirra. Hann veitti sérhverjum nemanda aðhald og hvatningu og fylgdist með ástundun. Orð lék á meðal nemenda skólans, að hann væri strangur kennari en ófáir gamlir nemendur hans hafa þó á fullorðinsárum látið í ljósi skilning á þessu og jafnvel þakklæti fyrir þau tök, sem hann tók þá í skóla.

Auk ofangreindra starfa voru Sigfúsi falin ýmis trúnaðarstörf. Var hann bókavörður við Bókasafn Kennarafélags Miðbæjarskólans árin 1936-41 og 1958-70 og frá 1970 ráðinn bókavörður við “Bókasafn Kennarafélags Miðbæjarskólans og Mortens Hansens skólastjóra”. Einnig var hann í stjórn ungmennafélagsins Velvakanda í Reykjavík árin 1937-41 og í stjórn Stéttarfélags barnakennara í Reykjavík 1938-41.

Eftir að Sigfús lét af kennslu, lærði hann bókband og batt inn rit, sem honum höfðu safnazt. Eftir veikindi 1978 varði hann tómstundum sínum einkum til könnunar gagna og skrifta um æskustöðvarnar og forfeður sína eystra.

 

1j Sigfús Björgvin Sigmundsson, f. 11. apríl 1905 í Gunnhildargerði, Hróarstungu, N-Múl., d. 14. jan. 1990, barnakennari (Alþsk. Eiðum 1925, Kennarask. Ísl. 1934) á Fljótsdalshéraði á árunum 1925-29, en lengst af í Miðbæjar- og Austurbæjarsk. í Rvík, 1935-1975 (kenndi ekki vegna veikinda 1941-44). Átti heimili í Reykjavík frá 1931, bjó frá 1950 með fjölskyldu sinni í Blönduhlíð 31, Rvík. – K. 13. jan. 1938, Anna Guðrún Frímannsdóttir, f. 20. apríl 1912 á Hamri á Þelamörk, Hörgárdal, Eyjaf., d. 9. okt. 1995, hfr. og saumakona (Kvennask. á Blönduósi 1932-33 og saumanámskeið í Reykjavík 1935-36). For.: Frímann Guðmundsson, bóndi, síðast á Efstalandi í Öxnadal, Eyjaf., f. 12. okt. 1878, d. 20. mars 1926, og k.h. Margrét Egedía Jónsdóttir, f. 1. sept. 1876, d. 2. maí 1956. Synir þeirra: a) Baldur Frímann, f. 4. maí 1939, b) Sigmundur, f. 26. júlí 1945, c) Rúnar Ingimar, f. 10. jan. 1949, d. 5. okt. 2010.