
Gunnhildargerði
Hugleiðingar um lýsingu eldri húsa í Gunnhildargerði í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi, l. bindi. Bygging gamla bæjarins og fleira.
Þegar aldur færist yfir og starfsdagar eru að verða taldir, hvarflar hugurinn oft aftur til liðins tíma, æsku og æskustöðva, og atburða, er þá gerðust. Svo hefur orðið, hvað mig snertir, bæði í vöku og draumi. Mig dreymir stundum, að ég sé staddur í gamla torfbænum í Gunnhildargerði í Hróarstungu, þar sem ég fæddist árið 1905, ólst upp og dvaldist samfellt fyrstu tuttugu árin, og öðru hvoru þó nokkru lengur. Sakna ég þess mjög að eiga ekki ljósmynd af þessum gamla bæ, en mynd hans er fast greypt í huga mínum.
Bærinn í Gunnhildargerði var að lögun og skipulagi að ýmsu leyti frábrugðinn öðrum sveitabæjum, sem ég sá á Fljótsdalshéraði í ungdæmi mínu. Hefur mér stundum komið til hugar að lýsa þessum bæ að nokkru, en ekki orðið af framkvæmdum.
Nýlega barst mér í hendur bókin Sveitir og jarðir í Múlaþingi, 1. bindi, að ytra útliti vönduð bók og prentuð á úrvalspappír. Ég las bókina með nokkurri forvitni og mér til ánægju á margan hátt, en þó með undantekningu. Í kaflanum um Gunnhildargerði á bls. 338 stendur: „Eldri hús: 1917 (F’18) eru 2 baðstofur, önnur 11×16 álnir1, en hin þrepbaðst. undir rafti 6×4.5 álnir. Þá mun hafa verið nýbyggð fyrrn. baðst. Járn var á baðst. og máttarviðir úr rekatrjám. (Önnur hús m.a. búr með kjallara og stofuhús og bæjardyrahús í einu lagi, 6 hlöður og myllukofi“.
Við þessa klausu er ýmislegt athugavert. Má af henni skilja, að tvær baðstofur hafi verið í Gunnhildargerði árið 1917 og önnur þeirra („fyrrn. baðst“) hafi þá verið nýbyggð, en hvorugt er rétt. Ekki verður séð af orðalagi, á hvorri baðstofunni átti að vera járn, eða hvort það átti að vera á báðum. Járn var ekki á baðstofunni, sem var í Gunnhildargerði árið 1917, aðeins torfþak.
F’18 er skammstöfun fyrir Gjörðabók fasteignamatsnefndar í Norður-Múlasýslu. Handritið er í Þjóðskjalasafni Íslands. Nefndin mun hafa verið skipuð árið 1916 og starfað tvö næstu ár. Jarðamatið á Gunnhildargerði var gert árið 1917.
Þegar vitnað er í heimildir, verður það að vera rétt gert, en þarna virðist mikið á það skorta. Í F’18 (venjulega nefnt Jarðamat 1918) er ekki tekið fram, að þá séu tvær baðstofur í Gunnhildargerði. Ekki er þar heldur sagt, að stofuhús og bæjardyrahús séu „í einu lagi“, þ.e. sama húsið. Ennfremur er ekki getið um, að járn sé á baðstofu eða að önnur baðstofan sé nýbyggð. Í F’18 er fyrst talin sér húseign ábúanda, og eru það auðvitað þau hús, sem þá eru uppistandandi á jörðinni. Þau eru metin á alls 1.192 kr. Síðan er talin sérstaklega húseign jarðarinnar, þ.e. þau hús, sem jörðinni fylgja, metin á 141 kr., og er þar m.a. talin „Baðstofa á þrepi undir rafti 6 x 4½ áln“. Þessi hús, sem voru eign jarðarinnar og fylgdu henni, hafa auðvitað verið fallin fyrir langa löngu fyrir tímans tönn. Þau hafa fylgt býlinu mjög lengi, kannski margar aldir, eða allt frá því að forráðamenn Kirkjubæjarkirkju stofnuðu þetta býli (hjáleigu) og létu byggja þar hús fyrir fólk og fénað og létu fylgja landrými, sem að líkindum hefur verið tekið af landi Nef bjarnarstaða.

Gunnhildargerði – Myndina tók Skarphéðinn Guðmundur Þórisson, fleiri skemmtilegar myndir má sjá á vefsíðu hans; http://hreindyr.com/land/utherad/
Í Jarða og ábúendatali frá árinu 1732 er Gunnhildargerði, að því er virðist, talin hjáleiga frá Nefbjarnarstöðum (þ.e. talið næst á eftir þeim bæ), og í landamerkjabréfi frá árinu 1890 er það talið afbýli frá Nefbjarnarstöðum. Í J. Johnsens Jarðatali á Íslandi 1847 er Gunnhildargerði hins vegar talið hjáleiga frá Kirkjubæ, og er það einnig gert í Nýrri jarðabók fyrir Ísland, útgefinni í Kaupmannahöfn árið 1861. Er sennilegra, að það sé rétt.
Baðstofa sú, sem ég og öll systkini mín, 9 að tölu, fæddumst í (það elzta árið 1884), var tvílyft og portbyggð og öll þiljuð innan í hólf og gólf. Ekki hef ég heimildir um, hvaða ár hún var byggð, en líklegt má telja, að það hafi verið um 1880.
Sóknarmannatal Kirkjubæjarkirkju er ekki til frá árunum 1871-1890 (mun hafa brunnið), en þegar aðalmanntal fór fram 1. október 1880 er Jón Magnússon, trésmiður, 35 ára ókvæntur, skráður í Gunnhildargerði „að smíðum“. Lögheimili Sörlastaðir í Seyðisfirði. Þá hafa einhverjar byggingaframkvæmdir átt sér stað í Gunnhildargerði.
Vitað er, hver reisti baðstofuna í Gunnhildargerði og sá um smíði hennar. Það var Magnús Magnússon, trésmiður, sonur séra Magnúsar Bergssonar, sem prestur var á Kirkjubæ árin 1852-1868 og fluttist þaðan að Eydölum2 í Breiðdal, og bróðir Eiríks Magnússonar, bókavarðar í Cambridge í Englandi. Magnús var nokkur ár bóndi og hreppstjóri í Húsey í Hróarstungu. Var hann kominn þangað árið 1869, en hvenær hann hættir búskap þar, er ekki vitað. Árið 1875 er Sigríður kona hans skráð á Ósi í Breiðdal hjá föður sínum, sem þar bjó, og er bústýra hjá honum næstu ár og hefur son sinn, Jón, hjá sér. Magnús, sonur hjónanna, er kominn í fóstur til afa síns að Eydölum árið 1875. Benda því líkur til, að það ár (eða 1874) hafi þau Magnús og Sigríður slitið samvistum.
Verið getur, að Magnús hafi búið lengur í Húsey eða dvalizt þar, en árið 1880, þegar aðalmanntal fer fram, er hann skráður á Bóndastöðum í Hjaltastaðaþinghá, „staða: lausamaður, trésmiður, lögheimili Eydalir“. Þó er hann ekki skráður til heimilis í Eydölum það ár né þau næstu. Bendir margt til þess, að hann hafi verið lausamaður og stundað smíðar eftir að hann hætti búskap í Húsey og allt til dauðadags. Hann dó í Eydölum hjá föður sínum 6. maí 1886.
Björn Hallsson, hreppstjóri og alþingismaður á Rangá í Hróarstungu, skrifaði eftirmæli eftir föður minn, Sigmund Jónsson, sem birtust í Óðni árið 1925, og Jón Jónsson, búfræðingur á Nefbjarnarstöðum (næsta bæ utan við Gunnhildargerði), skrifaði einnig eftirmæli eftir hann, sem birtust í Hæni 11. júlí, 1925. Þeir geta þess báðir, að Sigmundur hafi byggt upp öll bæjarhús í Gunnhildargerði. Björn segir þannig frá: „öll hús byggði hann upp“. Jón kemst þannig að orði: „Sigmundur ól allan sinn aldur í Gunnhildargerði. Hann var fæddur 4. ágúst 1852. Tók hann ungur við búsforráðum með móður sinni, að föður sínum látnum [árið 1866, innsk.] . Fórst honum það vel, eins og flest sem hann tók sér fyrir hendur. Litlu síðar en hann tók við búi byggði hann upp allan bæinn að nýju til, á einu ári og þótti það í mikið ráðist af manni við fremur lítil efni“.
Ætla mætti að, að þarna sé átt við, að öll gömlu bæjarhúsin hafi verið byggð „að nýju til, á einu ári“, því að tæplega hafa öll bæjarhúsin verið byggð á einu ári. Til þess hefði þurft mikið byggingarefni, bæði timbur, torf og grjót, og afar mikinn vinnukraft. Næstu ár hafa trúlega verið reist fleiri bæjarhús, þar til bærinn var orðinn í því formi, sem hann var, þegar við systkinin munum eftir honum, og stóð allur í þar til árið 1925. Líklegt þykir mér, að Magnús frá Húsey hafi reist baðstofuna í Gunnhildargerði einhvern tíma á árunum eftir að hann hætti búskap, og sennilegt er, að hann hafi séð þar um smíði fleiri bæjarhúsa. Þeir voru gamlir nágrannar og góðir kunningjar, faðir minn og hann.
Árið 1905 var baðstofan farin að missíga, og var henni þá lyft og hún rétt af og lengd um eitt stafgólf (u.þ.b. 3 álnir) til austurs. Var hún þá orðin fjögur stafgólf á lengd og náði alveg að skemmu og stofulofti, með tvöföldum timburvegg á milli. Þar hafði áður verið þykkur torf veggur, sem fjarlægður var. Ekki mun hafa verið vanþörf á þessari stækkun baðstofunnar, þar sem í heimili voru um þær mundir 14-16 manns. Uppi var þessi viðbót baðstofunnar afþiljuð og nefnd hjónahús, en niðri stækkaði pilthúsið að mun, og innra húsið (þá nefnt hjónahús) sömuleiðis, því að skilveggur milli þeirra var færður til, svo að bæði herbergin urðu svipuð að stærð. Guðlaug, systir mín, sem þá var orðin tíu ára, man vel eftir þessum framkvæmdum og hefur lýst þeim fyrir mér. Í þessari baðstofu var búið þar til sumarið 1926, en þá var hún rifin.
Vorið 1925 voru bæjardyr, stofa, skemma og skemmuloft rifin og ný baðstofa reist á sama stað, og sneri hún frá norðri til suðurs, þvert á hina fyrri. Torfveggir voru á þrjá vegu, en timburveggur með fjórum gluggum að austan, fram að hlaði. Timburþil með glugga var á risi stafna baðstofunnar (til suðurs og norðurs). Þessi baðstofa var portbyggð og með járnþaki. Hún var öll þiljuð innan, og var henni skipt í tvo hluta uppi, með uppgöngu (stiga) í nyrðri hlutann. Niðri voru tvö herbergi (annað stofa) og bæjardyr (mjór, afþiljaður gangur) við norðurvegg. Freistandi væri að geta sér til, að þarna sé komin skýringin á orðunum: „stofuhús og bæjardyrahús í einu lagi“ og „Járn var á baðst“. Þessi baðstofa varð ekki íbúðarhæf fyrr en sumarið 1926.
Af framansögðu mætti draga þá ályktun, að í greinargerðinni um eldri hús í Gunnhildargerði í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi hafi verið blandað saman húsum, sem á jörðinni stóðu árið 1917, og húsum, sem jörðinni fylgdu og fallin voru fyrir löngu, þótt getið sé réttilega í jarðamati, og þar við bætt baðstofu, sem varð íbúðarhæf og flutt var í árið 1926, níu árum eftir að jarðamatið var gert. Ef þetta er rétt til getið, verða það að teljast óheppileg vinnubrögð, svo að ekki sé meira sagt. Vera má, að unnt sé að finna á þessari eldrihúsa klausu, kenndri við „1917 (F’18)“, betri skýringu, en mér koma ekki aðrar í hug.
Úr Gjörðabók fasteignamatsnefndar í Norður-Múlasýslu 1917 og 1918 um Gunnhildargerði í Hróarstungu (gert 1917)
„Hús og mannvirki:
l.Húseign ábúanda:
a) Baðstofa llx6 áln. Kr. 375.00
b) Búr með kjallara undir 180.00
c) Stofuhús frammi og bæjardyrahús 305.00
d) 6 fjárhús og 6 heyhlöður 253.00
e) Eldhús 20/00, Smiðja 7/00,
Kamar 8/00, myllukofi 4/00 39 .00
f) 2 hesthús 40.00
———————–
Samt.Kr. 1.192.00.
2. Húseign jarðarinnar:
a) Baðstofa á þrepi undir
rafti 6 x 4 %2 áln . Kr. 24 . 00
b) Búr, Eldhús, Bæjardyr,
Smiðja og göng 54.00
c) 2 fjárhúskofar 26/00,
1 heyhlaða 28/00, Hesthús 9/00 63.00
———————–
Samt. Kr. l4l .00
Jörðin sjálf án húsa og mannvirkja metin á kr. 1.000,00“
BÆJARLÝSING
Bærinn, smiðjan og fleira
Þessi upptalning eldri húsa í Gunnhildargerði í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi varð til þess, að ég drattast nú til að reyna að lýsa bænum í Gunnhildargerði eins og hann var á uppvaxtarárum mínum. Verst er, að nú er búið að slétta yfir bæjarstæðið, svo að ekki er hægt að mæla stærð og lögun bæjarhúsanna. Verður því að styðjast við minnið að mestu leyti og að nokkru við ágizkun. Fylgja hér með teikningar af bænum, sem Rúnar, sonur minn, hefur gert. Af augljósum ástæðum er ekki unnt að fullyrða, að stærðarhlutföll séu alveg rétt, þótt tæplega skeiki mjög miklu. Grunnflötur baðstofu var llx6 álnir samkvæmt mælingum matsmanna árið 1917. Stærð annarra bæjarhúsa er miðuð við stærð baðstofu og ljósmynd, sem til er af tveimur yztu húsalengjunum.
Bærinn var fjórar húsalengjur með risi. Stóðu þær samhliða, voru jafnlangar og lágu því sem næst frá austri til vesturs. Sneru fjórir timburstafnar til austurs fram á hlaðið, en torfstafnar til vesturs, að undanteknum timburstafni á búrrisi á næstsyðstu húsalengjunni. Var bærinn ferkantaður og heildarsvipur hans reglulegur.
Syðsta (fremsta) bæjarþilið, stofuþilið, var hæst og breiðast. Næstsyðsta þilið, bæjardyraþilið, var lægst og mjóst, en tvö nyrztu (yztu) þilin voru nær jafnhá. Nyrzta þilið var heldur breiðara en það næstnyrzta. Torfveggir, hlaðnir neðst úr grjóti með torflagi milli steinaraða, en efri hluti úr torfstrengjum, aðskildu þessar húsalengjur, þó með þeirri undantekningu, að milli búrs og eldhúss var aðeins timburþil.
Ris nyrztu húsalengjanna tveggja voru jafnhá eftir endilöngu, en á hinum tveimur syðri var vesturhluti þeirra nokkru hærri en hinn austari. Var ris yfir búri og þvergangi þannig nokkru hærra en yfir millivegg og bæjardyrahúsi, og ris baðstofu nokkru hærra en ris stofulofts (skemmulofts) á syðstu lengjunni. Torfþök voru á öllum bæjarhúsum. Var svokallað strengjaþak á baðstofunni, en síðar var tyrft yfir það.
Allir útveggir bæjarins voru svo háir, að ekki varð upp á þá komizt án stiga. Var allsterklegur stigi að vestan upp við torfstafn búrsins, og mátti færa hann til eftir þörfum. Kvikfénaður komst því ekki upp á bæinn til að kroppa grængresið, sem þar óx. Var bærinn jafnan sleginn einhvern tíma sumars. Það voru þó nær eingöngu húsasund, þ.e. kverkar milli burstanna, sem slegin voru.
Bærinn stóð á hól, Bæjarhólnum, og hallaði frá honum á þrjá vegu (ekki að vestan). Hlað var austan við bæinn, og hallaði því til norðausturs, þó meir til austurs að hlaðvarpanum, sem aðeins var gegnt tveimur nyrztu bæjarþiljunum. Var allmikill halli á hlaðvarpa niður á jafnsléttu, og var hlaðið því frekar fljótt að þorna á vorin. Stétt, nokkru hærri en hlaðið, var næst bænum. Var hún með steinaröð fremst, og sums staðar alveg hellulögð. Á sumrin var hlaðið sópað, ef þurfa þótti.
Austan við hlaðið, gegnt tveim syðstu bæjarþiljunum, var sáðgarður, og náði hann nokkru lengra til suðurs. Var trégirðing (rimlagirðing) að honum hlaðsmegin, því að nokkuð hátt var ofan í hann af hlaðinu, hlaðinn veggur u.þ.b. 1½ alin á hæð. Hinar þrjár hliðar sáðgarðsins voru girtar torfveggjum. Í garðinum voru ræktaðar kartöflur og rófur. Í suðvesturhorni hans var rabarbari (tröllasúra), en í norðausturhorni óx graslaukur, er notaður var í mat á sumrin og haustin.
Í norðvesturhorni sáðgarðsins stóð smiðjan, og sneri timburþil hennar með dyrum og glugga til hliðar í vestur, gegnt bæjardyraþilinu. Austurstafn og hliðarveggir smiðjunnar voru hlaðnir. Var hún niðurgrafin þeim megin, sem að hlaðinu sneri (ein trappa niður að ganga) . Stærð hennar hefur verið tæplega 5×6 álnir, innanmál.
Í smiðjunni var afl, hlaðinn úr eintómu grjóti (hellum efst), físibelgur, steðji, skrúfstykki og fleira. Tveir smábekkir voru þar fyrir smíðatól og efni. Þarna var smíðað það, sem smíða þurfti úr járni, t.d. hestajárn (skeifur), ljábakkar o.fl. Ljáir voru og dengdir (klappaðir) á steðjanum. Í smiðjunni voru geymd alls konar amboð þ.e. orf, hrífur og ljáir, jarðyrkjuverkfæri, reipi, reiðfæri (reiðingar, þ.e. dýnur og klifberar) o.fl.
Syðsta húsalengjan
Syðsta húsalengja bæjarins var þeirra stærst, tvílyft og portbyggð. Austast var gestastofa með tveim sex rúðna gluggum, er sneru fram á hlaðið. Stofuhurðin var spjaldhurð, og þil voru tvískipt spjaldþil. Einn biti var í lofti, klæddur þunnum borðum. Stofan var máluð, nema gólfið var ómálað og hvítskúrað. Loftið var hvítt, en bitinn rauðbrúnn að neðan. Spjöld í hurð og þiljum höfðu verið hvít, en voru farin mjög að gulna, en bindingar voru rauðbrúnir. Á miðju gólfi var málað borð, sem var hægt að stækka með því að draga það í sundur og setja þar í tvær plötur. Þar voru einnig nokkrir stólar. Niður úr lofti hékk stofulampinn, 14 lína, sem kallað var, með hvítum kúpli og ljósdreifara. Skatthol var í stofunni, tvær kommóður og smáborð. Gestum var jafnan boðið til stofu, nema þegar kaldast var, því að ofn var þar enginn. Þó kom það fyrir, að stofan var yluð upp með lítilli olíuvél.
Næst stofu að vestan var skemman, frekar mjótt hús með glugga í suður og gluggaskoti í gegnum vegg, utan glugga. Var gengið úr skemmunni inn í stofuna. Moldargólf var í skemmunni, nokkru lægra en stofugólfið, en ferhyrndur timburpallur var við stofudyr, lítið eitt hærri en skemmugólfið. Stigi var í skemmunni upp á stofuloftið. Til hliðar við hann, við austurhlið skemmunnar, var stór byrða, sem náði að suðurvegg. Í henni voru geymd fjallagrös, og var hún kölluð grasabyrða.
Beint á móti byrðunni, við vesturvegg (tréþil), stóð hefilbekkur. Á honum voru heflar og fleiri verkfæri, og á þili upp yfir honum héngu sagir, axir, borvél o.fl. Þar var og sliðra fyrir ýmis smíðatól. Til hliðar við verkfæri þessi héngu kvensöðlar í röð á þilinu út að norðurvegg. Frá byrðunni við austurvegg voru snagar á þilinu bak við stigann, að stofudyrum. Þar héngu oft hversdagsföt og hríðarúlpur.
Uppi yfir stofu og skemmu var portbyggt geymsluloft, ýmist kallað stofuloft eða skemmuloft, með sex rúðna glugga á stafni fram að hlaði. Var það alþiljað, súð með reisifjöl.
Þegar komið var upp úr stiga á stofuloft, var stór, tvískipt kornbyrða á hægri hönd, við suðurhlið. Í öðrum hluta hennar var geymdur rúgur, en í hinum rúgmjöl. Tvær kistur stóðu innan (austar) við suðurhlið. Í annarri þeirra, s.k. grjónakistu, voru grjón (bankabygg og hrísgrjón) geymd, en í hinni oftast ýmis önnur matvæli. Þrjár kistur stóðu við austurstafninn; var „Græna kistan“ í miðið, undir glugga. Við hana eru bundnar góðar minningar um sætar kökur, súkkulað, rúsínur og fleira góðgæti, og er hún nú í minni eign. Í kistum þessum og reyndar einni í viðbót, sem var við norðurhlið, voru oftast geymd ýmiss konar matvæli. Margt fleira en matur var geymt á lofti þessu.
Vestan skemmu og stofulofts var baðstofan. Var þar á milli tvöfaldur timburveggur með tróði á milli. Baðstofan var tvílyft og portbyggð, fjögur stafgólf á lengd og samkvæmt mati 1917 (F18) 11 álnir á lengd og 6 álnir á breidd.
Gengið var inn í baðstofuna úr þvergangi, er síðar getur. Var þá fyrst komið inn í herbergi undir palli (á neðri hæð), sem kallað var pilthús. Þar sváfu vinnumenn. Tvö fastarúm (negld við vegg) voru í pilthúsinu, annað við suðurhlið, en hitt við norðurhlið, og sneru höfðalög þeirra að austurvegg. Að fótagafli þess rúms, er við norðurhlið var, féll hurðin til vinstri, þegar inn var gengið í pilthúsið, en til hægri var stigi upp á baðstofuloft, sem alltaf var kölluð baðstofa. Undir stiganum var af þiljuð „kompa“ með lítilli hurð fyrir. Lítið borð stóð við austurvegg, og koffort vinnumanna við rúm þeirra. Sex rúðna gluggi var á suðurhlið, nær beint á móti dyrum, með gluggaskoti utan hans. Úr pilthúsi var gengið inn í annað herbergi, sem kallað var hjónahús, áður en baðstofan var stækkuð árið 1905, en síðan oft nefnd „húsið“. Það var jafnstórt og pilthúsið. Á því var sex rúðna gluggi til suðurs og gluggaskot eins og á pilthúsinu. Var helmingur gluggans á hjörum og því hægt að opna hann. Í þessu herbergi var eitt færirúm, borð, stólar, setubekkur, fataskápur og kommóða, og stóð á henni bókaskápur með gleri í hurðum. Var herbergið ýmist haft fyrir gesti eða heimafólk, en síðar var það aftur gert að hjónaherbergi og þá settur í það ofn.
Bæði þessi herbergi á neðri hæð baðstofunnar voru þiljuð innan með tvískiptu spjaldþili. Vefstóll var settur upp í pilthúsi á veturna. Stóð hann við vesturvegg, sunnan dyra inn í „húsið“. Var þar ofið vaðmál, bæði í innri og ytri föt heimilisfólks, undirflíkur í rúm og rúmteppi.
Efri hæð baðstofunnar, rishæðin, var eins og áður segir portbyggð, og á hverju stafgólfi miðju var fjögurra rúðna gluggi mót suðri, alls fjórir gluggar. Baðstofan var því björt og vistleg. Ekki var eins bjart niðri, þar sem gluggaskotin drógu úr birtunni. Í austurenda baðstofunnar uppi var afþiljað hjónaherbergi (viðbót baðstofu árið 1905), eitt stafgólf, líklega ívið breiðari en hin stafgólfin. Þar var hægt að opna glugga. Fastarúm voru þar ekki, en tvö færirúm, mismunandi að gerð, sem hér skal lýst .
Til voru tvær gerðir af svokölluðum færirúmum. Höfðu þær það sameiginlegt, að rúmið var í tveim hlutum, hægt var að draga það saman (minnka) og sundur aftur, og það var með sex fótum. Aðra gerðina var hægt að draga saman á lengdina (gekk þá mjórri hlutinn inn í breiðari hlutann, sem var til höfða) og draga sundur í hæfilega lengd, þegar um var búið og til rekkju gengið að kveldi. Hin gerðin var þannig, að rúmið var dregið saman á breiddina (mjókkað), en dregið sundur, þegar um var búið (venjulega hjónarúm). Báðar gerðirnar þjónuðu þeim tilgangi, að nota mætti gólfplássið sem bezt að degi til, þegar setið var við vinnu í lítilli baðstofu.
Prjónavél var keypt árið 1911, og var hún sett niður í hjónaherberginu uppi.
Tvö fastarúm voru við suðurhlið baðstofunnar, og eitt fastarúm var við vesturstafn, og var lítið skot (bil) milli höfðalags þess og hinna rúmanna. Aftan við þetta rúm stóð há klukka, „áttadagaúr“, við vesturstafninn. Tvö fastarúm voru við norðurhlið, en aftan við það austara var uppgangan í baðstofuna. Var hleri á hjörum yfir uppgönguopinu (stigaopinu). Hinum megin við opið hafði verið mjótt fastarúm meðfram stafni, en það var tekið burt, þegar ofn kom í baðstofuna árið 1905, um leið og baðstofan var lengd til austurs sem hjónahúsi nam. Ofninn stóð þannig norðan við dyr hjónahússins og ylaði upp alla baðstofuna uppi á veturna.
Allstór olíulampi hékk úr risi í miðri baðstofu. Bandið, sem hann var festur í, lék í trissu í risinu (mæninum), svo að hægt var að draga lampann niður, þegar ljós var kveikt, og upp, eftir að slökkt var á honum. Mjór strompur var á baðstofunni til að gera loftbetra í henni.
Til voru svokallaðir ytrigluggar, með einni rúðu, jafnstórir innri gluggunum. Þeir voru settir á haustin í þar til gerða falsa fyrir utan baðstofugluggana (nema hjónahúsgluggann uppi), og var nokkurt bil, 10-12 cm, milli innri og ytri glugganna uppi, en miklu lengra bil, um ein alin, niðri. Þetta var til mikilla hlýinda í baðstofunni í vetrarkuldunum, enda til þess gert. Þegar voraði, voru ytri gluggarnir teknir frá aftur og geymdir uppi á stofulofti yfir sumarið.
Undir baðstofunni var kjallari, fjósið, þar sem kýrnar voru hafðar á vetrum. Var þess vegna hlýrra í pilthúsi og „húsi“ en búast mátti við, því að þar var enginn ofn.
Allir veggir fjóssins voru sérstaklega vel hlaðnir úr grjóti. Við norðurvegg voru fjórir básar hlið við hlið, og voru jötur næst vegg. Trébálkar voru milli bása. Var flórinn allur hellulagður. Kálfastía var austast, við enda flórsins. Tröð (stétt) var eftir endilöngu fjósinu milli flórsins og suðurveggjar. Frá henni miðri var allstórt útskot til suðurs, undir bæjarvegg. Þar stóð m.a. vatnstunnan. Var í hana rennt vatninu handa kúnum utan frá, gegnum trérennu. Austan við rennuopið úti var tveggja rúðna gluggi niðri við jörð, og hallaði gluggaskoti mikið frá honum niður á við. Þó að gluggi þessi væri ekki stór, bar hann allgóða birtu í miðhluta fjóssins, en minna til hliðanna.
Stigi lá úr pilthúsi (aftan við rúmstæðið við suðurhlið) niður á tröðina í fjósinu. Var rammlegur hleri á hjörum yfir lúgugati, og féll hann þétt í falsa, svo að lítt gætti fjósalofts í pilthúsi nema lúgugat væri opið. Þessa leið fóru konur til mjalta, og var mjólkin borin í tréskjölum (fötum) upp stigann og fram í búr, þar sem skilvindan var.
Útidyr voru vestan til á fjósinu mót suðri, beint fram (suður) af „húsglugga“, en í nokkurri fjarlægð frá honum. Frá útidyrum þessum lá gangur, með hallandi þrepum hið ytra, niður í fjósið. Hurð var fyrir ganginum fjósmegin, og önnur í miðjum gangi. Útidyr á fjósgangi þessum hölluðust það mikið, að útidyrahurð féll í falsa án hjara og loku og haggaðist ekki, þó mikið blési. Þarna fóru kýrnar út á vorin og inn á haustin. Inn um þennan gang var fóður kúnna borið í kláfum (heymeisum), en síðari ár í pokum, og þarna út var aftur borið í kassa það, sem frá kúnum kom, nema mjólkin. Kýrnar voru aldrei hafðar í þessu fjósi á sumrin. Þá voru þær hýstar í hesthúsi, er stóð æði spöl norðaustur frá bænum.
Næstsyðsta húsalengjan
Portbyggðar „bæjardyr“, þ.e. bæjardyrahús, voru austast í næstsyðstu húsalengjunni, með útidyr fram á hlaðið. Lítill gluggi var á þeim sunnan dyra.
Yfir bæjardyrum var svokallað dyraloft, með glugga á stafni fram á hlaðið. Þar var eitt fastarúm við suðurhlið, borð undir glugga, og innbyggður skápur við vesturvegg. Stigi var upp á bæjardyraloftið úr bæjardyrum, og var hleri á hjörum yfir stigaopi. Vestan dyralofts og yfir bæjardyrum var ekki fast gólf á einu stafgólfi, aðeins lausar fjalir lagðar milli bita. Þar var ýmislegt geymt, t.d. sundurtekinn vef stóll, þegar hann var ekki í notkun, rakgrind o.fl.
Moldargólf var í bæjardyrunum, og var það lítið eitt lægra en stéttin úti fyrir. Bæjarhurð var allsterkleg og lokað að innan með klinku. Hnakkar og beizli héngu í bæjardyrum, og margt fleira var þar geymt, aðallega við norðurhlið.
Utan við bæjardyrnar var á haustin sett svokallað forskyggni til hlýinda. Var það úr timbri og ferkantað, með tveimur dyrum. Aðrar þeirra sneru beint fram á hlaðið, en hinar sneru í suður, og var um þær gengið í norðanveðrum. Á forskyggninu voru krókar, sem krækt var í lykkjur á bæjarþilinu. Forskyggnið var tekið frá bæjardyrum á vorin, þegar hlýna tók í veðri.
Innarlega úr bæjardyrum var gengið inn í skemmuna til vinstri handar. Þar var skellihurð.
Þykkur veggur var vestan bæjardyra, og í gegnum hann stutt göng með skellihurð fyrir, bæjardyramegin. Þegar inn úr þeim göngum var komið, tók við breiður gangur, sem lá þvert yfir húsalengjuna. Blasti þá við ofan á hnéháum, hlöðnum steinvegg timburveggur, er náði alveg upp í ris og þvert yfir húsalengjuna. Það var stafninn á búrinu, og inn í það var gengið um dyr, sem voru lengst til hægri (nyrzt) á stafninum. Lítill gluggi var á þekjunni til suðurs, svo að bjart var í gangi þessum á daginn. Til vinstri handar (suðurs) var gengið úr honum til baðstofu, og þá komið fyrst inn í pilthúsið, sem áður getur. Þar munu upphaf lega hafa verið tvær skellihurðir, en þegar ég man eftir mér, hafði önnur þeirra (gangmegin) verið tekin. Til hægri (norðurs) hallaði ganginum talsvert upp á við. Var þar og þrep í honum nokkru neðar en gengið var inn í eldhúsið, og ein trétrappa var við búrdyr, því að gólf þess var hærra en nam hækkun ganggólfsins.
Vestan þessa breiða þvergangs var búrið. Það var reisulegt og rúmgott og allt þiljað innan. Ekki var loft yfir því, sem hefði þó getað verið, þar sem bitar voru þvert yfir það. Það var því æði hátt upp í risið, og þurfti að leggja planka eða sterk borð á milli bita, þegar gera þurfti risið hreint. Var búrið alltaf „gert hreint“, þ.e. þvegið hátt og lágt á hverju vori , eins og baðstofan, áður en heyannir byrjuðu.
Þegar inn í búrið var komið, var stór eldavél úr pottjárni á vinstri hönd, við austurstafn, múruð að innan. Hún var sett þar árið 1892. Á henni var eldaður matur til daglegra þarfa. Var eldavélin með þremur eldhólfum og bakaraofni, einnig bakpotti (vatnskassa), sem jafnan var í heitt vatn. Blikkplata, allbreið, var á gólfi fyrir framan eldavél til að varna eldhættu. Hinum megin (sunnan) við eldavélina við austurstafn var rúmgott „skot“, og var þar hafður eldiviður, tað og mór, í kassa. Lítil „saltkista“ með loki á var fest ofarlega á stafninn, yfir bakpottinum og eldiviðarskotinu.
Við suðurhlið búrsins var skilvinda á bekk. Var hún með merkinu Alfa-Laval og kom árið 1896. Utan um hana var hafður nokkuð hár kassi, „skilvindukassinn“, þegar hún var ekki í notkun. Búrbekkurinn, með lokuðum skápum undir, var innar (vestar) við suðurhlið, og náði hann að vesturstafni. Diskarekki (diskagrind) var á vegg yfir búrbekk, og innar stór, lokaður skápur fyrir leirtau o. fl. Hann náði að vesturstafni. Bekkur var einnig við vesturstafn, en engir skápar. Setubekkur var við norðurhlið.
Stafn á búrrisi var úr timbri, sem áður getur. Allstór, sex rúðna gluggi var á honum, og sneri í vestur. Var því vel bjart í búrinu.
Undir búrinu var kjallari, sem matur var geymdur í. Veggir hans voru hlaðnir úr grjóti. Stigi lá ofan í kjallarann úr norðvesturhorni búrsins, og var viðamikill hleri á hjörum yfir stigagatinu. Lítill, tveggja rúðna gluggi var vestan á kjallaranum, alveg niðri við jörð að utan, en gluggaskoti hallaði mikið frá honum niður í kjallarann. Þessi gluggi átti sér sína sérstöku sögu. Það var hann, sem Móskjóna braut og skar sig þá á glerinu og sagt er frá í ljóðabréfi Páls skálds Ólafssonar til Jóns Sigurðssonar á Ketilsstöðum (sbr. Ljóðmæli eftir Pál Ólafsson, II. bindi, bls. 173, Reykjavík, 1900, útg. Jón Ólafsson). Var ljóðabréf þetta stundum kallað Móskjónuvísur.
Í kjallaranum voru tvö keröld (sáir) og nokkrar tunnur, sem skyr, slátur og annað súrmeti var geymt í, og einnig saltkjöt. Hillur voru við austur og suðurvegg yfir tunnum. Þar voru ostar geymdir, berjasaft, smjör o.fl.
Á vorin var allur matur tekinn úr kjallaranum og farið með tunnur og minni ílát, skyrbyður, trog, ostadalla, bakka o. fl . , út að Bæjarlæk, þar sem þau voru þvegin og soðin og sett til þerris á eftir. Á meðan var eldur kveiktur á miðju kjallaragólfi, aðallega í lyngi, og þannig til hagað, að lítið logaði. Kom þá reykur mikill og svæla, sem áttu að tortíma öllum smákvikindum, er þar kynnu að leynast. Var þetta þeirra tíma sótthreinsun. Að þessu loknu var allri svælu hleypt út, loft og veggir sópaðir með hrísvendi og kjallarinn allur hreinsaður sem hægt var. Síðan voru blöð fest neðan á loft og á veggi yfir tunnum og keröldum. Þegar þessu var lokið, voru keröldin og stór kaggi vandlega þvegin úr sjóðandi vatni í kjallaranum. Síðan voru hrein matarílátin borin aftur niður í kjallarann, tilbúin til að taka á móti matvælum (skyri, smjöri og ostum), sem gerð voru úr málnytu kvíaánna og kúnna að sumrinu.
Næstnyrzta húsalengjan
Þriðju húsalengjuna frá suðri mynduðu aðeins tvö, alllöng hús með þykkum torfvegg á milli. Austara húsið var hlaða, sem kölluð var Kúahlaða, af því að hún hafði að geyma fóður kúnna, töðuna af túninu. Hlöðuþilið fram á hlaðið náði ekki alveg niður að bæjarstétt eins og hin bæjarþilin, heldur var grjótveggur, rúmlega alin á hæð, undir þilinu. Hlaðan var talsvert niðurgrafin. Dyr voru á miðju hlöðuþilinu og gluggi fyrir ofan þær. Vindauga (baggagat) var á hlöðuþekju að norðan, og þurfti að láta þar inn töðubaggana, þegar hækka tók í hlöðunni á sumrin.
Vestan hlöðunnar var eldhúsið, sem var alllangt. Þar voru nokkrir birkiraftar í risi, sýnilega mjög gamlir. Þrennar hlóðir voru samhliða við vesturstafn. Var nokkurt bil frá vegg að hlóðum, og stórar hellur voru reistar upp aftan hlóða; hvort tveggja haft þannig til að gera eldhættu minni. Þarna var slátur soðið á haustin í stórum pottum og mjólk flóuð til skyrgerðar á sumrin. Þar var og þvottur þveginn og soðinn.
Hór hékk úr risi yfir syðstu hlóðunum. Mun hann ekki hafa verið mikið notaður, eftir að eldavélin kom árið 1892, og síðar niður tekinn. Sunnan hlóða stóð vatnstunna við stafninn, og var í hana rennt bæjarvatninu utan frá eftir trérennu (timburstokk), sem lá gegnum vegginn. Þurfti því ekki að bera vatnið inn bæjardyr og göng. Renna þessi bilaði á seinni árum, og eftir það var vatnið borið í bæinn.
Eldiviður, tað og svörður, var geymdur í fremri (austari) hluta eldhússins, við norðurvegg. Var sauðataðið borið þangað inn á haustin og hlaðið upp í stóra hlaða, en sverðinum (mónum) var ekið heim í pokum á sleða á vetrum.
Nær þvergangi, við austurstafn eldhússins stóð kvarnarstokkurinn með handkvörnum í. Þar var á veturna malaður rúgur og stundum grjón með handaflinu einu, þegar vatn þraut í Myllulæknum. Eftir að hætt var að nota kvörnina, hvarf hún þaðan, en þar sem kvarnarstokkurinn hafði áður staðið, var sett vatnstunna.
Við norðurvegg, vestan eldiviðarhlaða, stóðu tvær tunnur. Í annarri þeirra var sortulyngslögur, sem notaður var til að lita skinn, en í hina tunnuna var safnað keytu, sem notuð var við ullarþvottinn á vorin.
Næst tunnum þessum að vestan voru dyr inn í kamarinn, sem var í nyrztu húsalengjunni. Á gólfinu framan við dyr þessar var rennuop, sem öllu skólpi var hellt í, og rann það eftir niðurgrafinni skólprennu í kamarkjallarann .
Tveir stórir strompar voru á eldhúsinu og var annar þeirra yfir hlóðum. Var þó stundum mikill reykur í eldhúsinu, t.d. þegar „sló ofan í“ strompinn í hvassviðri og þegar kjöt var reykt á haustin. Botnlausar smátunnur voru hafðar innan í strompunum og torfi hlaðið utan um þær.
Kjöt og fleira, sem reykja átti, hékk uppi í rjáfrinu í innri (vestari) hluta eldhússins, en framar héngu kindabjórar og stórgripahúðir, sem notuð voru til skógerðar. Var ekki laust við það, að börn tryðu því, að uppi í eldhúsrjáfrinu héldu jólasveinarnir til fyrir jólin.
Vegna þess að torfveggur var ekki milli búrs og eldhúss, var þar nokkurt bil milli eldhúsþils og stoða, er báru uppi lausholt (staflægju) eldhússins, sem sperrur og raftar hvíldu á. Þar vildi leka, þegar snjór hlánaði í sundinu yfir, og í mikilli rigningartíð. Þar voru því ekki geymdir búshlutir, sem ekki máttu blotna. Í eldhúsi höfðu hundar jafnan aðsetur og átu mat sinn þar.
Nyrzta húsalengjan
Í nyrztu húsalengjunni var hesthús austast, og dyr á því nyrzt á þilinu fram á hlaðið. Tveggja rúðna gluggi var til hliðar við dyrnar og annarjafnstór gluggi ofar. Fast loft var ekki í hesthúsinu, en borðviður var geymdur ofan á bitunum og myndaði raunar loft að hluta, þar sem geyma mátti ýmislegt. Þessi borð voru ætluð í líkkistur, ef einhver dæi á heimilinu, því að langt var með aðdrætti úr kaupstað, og sérstaklega gat það verið erfitt að vetrarlagi. Það kom og fyrir, að nágrannar fengu borð þessi að láni, ef dauðsfall bar að og ástæður voru erfiðar til aðdrátta.
Stallur var við vesturgafl hesthússins og dyr úr honum inn í heyhlöðuna. Í þessu hesthúsi voru einkum hafðir reiðhestar og aðrir hestar, sem hafa þurfti á skaflajárnum á veturna. Var hægt að hafa þar þrjá hesta.

Hesturinn í húsinu, sem hékk fyrir ofan hesthúsdyrnar í Gunnhildargerði
Yfir hesthúsdyrunum úti var fest snoturt rislaga, lítið hús með gleri að framan (lengd 27,5 cm, hæð undir ris 21,3 cm og dýpt 7,5 cm). Inni í því var bleikur tréhestur, sem virtist eftir fótaburði að dæma og allri sköpun og reisn vera mikill gæðingur. Þetta var mjög vel gerður gripur, og okkur krökkunum fannst hann listaverk. Þótt hestur þessi virtist hlaupalegur, hafði hann þó ekki gert víðreist. Hann hafði aðeins farið eina bæjarleið. Sigmundur Jónsson, faðir okkar systkina og bóndi í Gunnhildargerði, hafði fyrr á árum vanað fola fyrir nágranna sína. Unglingspiltur á næsta bæ, Kirkjubæ, fékk Sigmund til að vana fola, sem hann átti, en svo illa tókst til, að stuttu síðar drapst folinn, og var vönunni um kennt. Bætti þá Sigmundur piltinum skaðann með því að láta hann hafa annan fola. Ekki fara sögur af því, hvort sá foli var jafngóður þeim, sem drepizt hafði, en nokkru síðar færði pilturinn Sigmundi þennan bleika hest, sem hann hafði smíðað sjálfur. Smíði hestsins ber vitni um sérstakan hagleik og listamannshæfileika. Pilturinn lagði þó ekki stund á nám í þeirri grein, heldur hóf annað nám og varð síðar kunnur meðal þjóðarinnar. Þetta var Þorsteinn Gíslason, ritstjóri og skáld, og hesturinn nú kominn í eigu eins sonar hans.
Heyhlaða var næst hesthúsinu að vestan. Var baggagat, venjulega nefnt vindauga, sunnan á þekju hennar, og var því erfitt að koma heyi í hana. Venjulega var látið í hana gott hey, jafnvel taða og há.
Vestan við hlöðuna var torfstafn, og hinum megin við hann var kamarinn. Var hann óþarflega stór. Timburgólf var í honum, og tréseta í suðvesturhorni. Gluggi var á suðurhlið þekju. Kjallari var undir gólfinu, og voru veggir hans að mestu hlaðnir úr grjóti. Mikið af ösku var látið ofan í kjallara þennan, að mestu gegnum þar til gerða rauf í norðvesturhorni. Var úr kjallaranum stuttur gangur til vesturs, og þar var kamarforinni mokað út á haustin og ekið í túnflög undir þökur. Var rofamold (úr föllnum húsum) síðan ekið inn í kjallarann og dreift um gólfið. Var talið, að hún ásamt ösku, skólpi, þvagi og mannasaur o.fl. væru orðin að sæmilegum áburði árið eftir. Kamarmoksturinn á haustin þótti ekki eftirsóknarvert starf, en varð þó að vinna eins og önnur bústörf.
Kamar þessi var stundum notaður til annars en þess, sem nafnið bendir til. Hann var t.d. oft notaður sem fæðingarheimili, þegar þess þurfti með. Í norðausturhorni hans var gamall og stór pottur, sem ekki gat þjónað þeim tilgangi lengur að vera settur yfir eld, vegna botnskemmda. Í hann hafði verið sett hey o.fl. mjúkt til hlýinda. Í þessum potti átti tíkin á heimilinu, Grýla, sér athvarf, þegar hún eignaðist hvolpana sína. Þótti ungmennum góð skemmtun að heimsækja þessa fjölskyldu og færa Grýlu mat, sérstaklega þó, þegar hvolparnir voru orðnir svo stórir, að hægt var að leika sér að þeim. Það voru skemmtilegar stundir.
Fleiri tíkur en Grýla áttu síðan hvolpana sína í þessum potti, en þá höfðu æskuárin liðið, og ekki eins gaman og áður að leika sér við litla, fallega hvolpa.
Hestarétt var norðan við bæinn og dyr austan á, við bæjarvegg.
Áður er þess getið, að vorið 1925 voru bæjardyr, stofa, skemma og skemmuloft rifin, og baðstofa var rifin 1926. Hin gömlu bæjarhúsin að undanteknum kamri stóðu þangað til sumarið 1949, er þau voru rifin. Hafði þá verið byggt íbúðarhús úr steinsteypu.
Vatnsból
Allt vatn þurfti að bera í bæ og gripahús. Var það ærið verk og erfitt á veturna. Til að létta það starf var notaður vatnsberi og einnig vatnsgrind. Vatnsból voru ekki góð né örugg. Vatnið var sótt fram (suður) í Bæjarlækinn, þegar hægt var, en í honum þraut oft vatn, sérstaklega á veturna og þurrkasumrum. Mjög djúpur brunnur var á Bæjarhólnum, nokkrum skrefum vestan við bæinn. Hann var hringmyndaður eins og flestir brunnar og mjög vel hlaðinn innan. Var yfir honum lítið brunnhús úr timbri, sem lokað var með hallandi hlera. Allsver viðarás var festur sitt hvoru megin inni í brunnhúsinu með sverum og sívölum járnásum, með járnsveif á öðrum enda. Löng keðjufesti úr járni var fest við viðarásinn, og í hinn enda festarinnar var njörvuð tréskjóla, sem með hjálp sveifarinnar var notuð til að hala vatnið upp úr brunninum. Vafðist þá festin ýmist ofan af viðarásnum eða utan um hann, eftir því hvort fatan fór niður í brunninn eða upp.
Annar brunnur var í mýrinni neðan (austan) við bæinn. Var hann ekki djúpur, og auðveldara að sækja vatn í hann. Brunnhús með torfþaki var við þennan brunn, þó ekki alveg yfir honum , þegar ég man eftir mér. Verst var, að í hvorugum brunninum var gott vatn, en þó oftast betra í þeim síðarnefnda.
Á veturna þraut stundum vatn bæði í Bæjarlæk og brunnum þessum. Þá þurfti að aka bæjarvatninu í tunnum á sleða úr lind, sem sjaldan þraut vatn í. Var hún neðan við Hlíðina, sem er fyrir ofan (vestan) bæinn, æði langt frá honum, niður af s.k. Svartakletti.
Þriðji brunnurinn var alllangt framan (sunnan) við bæinn, rétt vestan við Kirkjusund, sem svo var kallað. Það var gott uppsprettuvatn, og talið að það þryti aldrei. Síðar, árið 1944, var lögð vatnsleiðsla úr þeim brunni heim í bæ og gripahús.
Gripahús
Vestan við bæinn voru þrjú fjárhús samhliða á Bæjarhólnum, og sneru dyr þeirra í suður. Þau voru kölluð Lambhús, því að í þeim voru lömbin höfð á veturna. Húsið, sem næst var bænum, var kallað Austurkofi, það næsta við hann Miðhús, en húsið, sem vestast var, nefndist Norðurklofi. 3 Fjarlægð milli bæjar og Lambhúsa var um 10-12 metrar. Stór hlaða var við norðurstafna Lambhúsanna og úr henni gengið fram í garða allra húsanna. Þessi hús voru fremur lítil, hafa varla tekið meira en 80-90 lömb á garða.
Betra hey var jafnan látið í Lambhúshlöðuna en við önnur fjárhús, til þess að lömbin döfnuðu vel. Mörg þeirra voru fráfærnalömb og því minni og rýrari en dilkarnir.
Norð-norðvestur af bænum var fjárhús, sem hét Móhús. Sneru dyr þess í austur, en vestan við það var hlaða, kölluð Móhúshlaða. Eins og nafnið bendir til, hefur fjárhús þetta upprunalega verið byggt utan túns í óræktuðum mó, en búið var að rækta tún allt í kringum það og slétta að mestu.
Nokkru norðan við Móhúsið stóð lítill kindakofi í túnjaðri, kallaður Hrútakofi. Dyr sneru í austur, og var heyjata við norðurhlið. Þar voru hrútar hafðir á vetrum.
Handan við Bæjarlækinn, suður af túninu, tók við mýri, nema suður af sjálfum bænum. Þar skar lækurinn túnið sundur, og var sunnan hans túnblettur, sem hét Sauðhústún. Á þessum túnbletti var ávalur hóll, og á honum stóð fjárhús, sem hét Sauðhús og sneri frá vestri til austurs. Dyr þess sneru í austur, en vestan við það var Sauðhúshlaðan. Hún var hringmynduð og þakið einnig. Var það bratt og mænir þess topplagaður.
Árið 1914 var garðinn í Sauðhúsinu steinsteyptur, og fremst (austast) í garðahöfði var steypt niðurgrafin baðþró, með tröppum efst upp í garðann. Þar var féð baðað fyrri hluta vetrar, skömmu fyrir jól. Eftir baðið í þrónni fóru kindurnar upp í garðann, sem hallaði lítið eitt að þrónni, og þar seig baðlögurinn úr þeim og rann niður í þróna. Auk heima fjár var um áraskeið baðað þarna fé af næstu bæjum. Það þótti betra en að baða í trékörum, sem notuð voru áður.
Milli lækjar og Sauðhúss sást móta fyrir gömlum tóftum, sem síðar voru sléttaðar.
Norðaustur af bænum var hesthús, upphaf lega byggt utan túns, er tók fimm hesta. Voru dyr á austurhlið, en heystallur við vesturhlið. Sunnan við það var hlaða, og voru dyr úr henni fram í hesthússtallinn. Lítill hesthúskofi fyrir einn hest var byggður skammt sunnan við hesthúshlöðuna. Ekki var hlaða við hann, en heyi kastað norðan við hann.
Beitarhús voru niðri við Lagarfljót, utan við s.k. Smiðjuhól. Það voru þrjú fjárhús, sem stóðu samhliða, og sneru dyr í austur. Heyhlaða var vestan þeirra, og var úr henni gengið fram í garða allra húsanna. Heygarðar voru eftir endilöngum fjárhúsunum og krær til beggja hliða, og þannig var í öllum fjárhúsum í Gunnhildargerði, að undanteknum Hrútakofanum.
Sauðir voru hafðir á beitarhúsunum, og lágu þeir oft „við opið“, sem svo var kallað, þ.e. húsin voru höfð opin, og gátu þá kindurnar ráðið því, hvenær þær leituðu húsa eða voru á beit. Þar voru einnig oft hafðar vænstu ærnar, og eftir að hætt var að hafa sauði, voru eingöngu ær hafðar á beitarhúsunum. Fjárrétt, niðurgrafin á þrjá vegu (ekki að austan), var örskammt frá nyrzta húsinu í norðausturátt. Þar var lambféð og geldféð réttað á vorin, þegar stíað var. Þá voru lömbin tekin og sett í nyrzta fjárhúsið og höfð þar yfir nóttina, en hleypt til mæðra sinna snemma morguns. Rúningur sauðfjár fór að miklu leyti fram í réttinni eða kringum hana.
Kvíar
Kvíar voru byggðar (hlaðnar) í mónum talsvert norðar en Hrútakofinn var. Var mórinn frá túninu að kvíunum stunginn upp og sléttaður, og eftir allmörg ár varð sá blettur að túni.
Áður hafði staðið fjárrétt vestan við gamlan túngarð, sem hlaðinn hafði verið vestan við túnið, skammt frá hlíðarbrekkunni. Hluti af þeirri fjárrétt hafði áður verið kvíar. Síðar var þessari rétt breytt í sáðgarð. Voru þar einkum ræktaðar gulrófur.
Mylla
Mylla var uppi á Hlíðinni, suðvestur frá bænum. Þar rann Myllulækurinn og myndaði foss nokkru neðar niður Hlíðina.
Úr Myllulæknum var veitt vatni eftir skurði að myllunni. Rann vatnið undir hana og sneri myllukarlinum, sem var með nokkrum spöðum neðarlega. Þaðan rann vatnið áfram niður í lækinn. Man ég vel eftir, þegar malað var í myllunni, og þótti mér það mesta furðuverk. Svo var hætt að nota mylluna, og þá féll hún smámsaman fyrir tímans tönn. Suðvestur af myllunni var hvammur, Myllubotninn.
Tún og matjurtagarðar
Í Gjörðabók fasteignamatsnefndar í Norður-Múlasýslu 1917 stendur: „Túnið er talið 256 arar að stærð, fremur snögglent og brunahætt með köflum. Allt þýft nema um 64 arar, sem sléttaðir hafa verið. Gefur af sér í meðalári 60 hesta. Matjurtagarðar um 300 m2, uppskera óviss“
256 arar eru rúmlega 2,5 hektarar eða 8,0 dagsláttur. Samkvæmt ofanskráðu hafði aðeins 4 hluti þess verið sléttaður árið 1917. Ég get ekki með neinum rökum rengt, að það sé rétt. Þó finnst mér, að slétturnar hafi verið mun stærri hluti túns.
Sumarið 1919 voru mæld tún og matjurtagarðar á öllum bæjum í Norður-Múlasýslu og kort gerð af þeim. Þessi kort voru send heim á bæina, og er kortið frá Gunnhildargerði varðveitt enn. Túnið í Gunnhildargerði er þar talið vera 3,7 hektarar (11,6 dagsláttur) og matjurtagarðar 793 m2.
Mælingamaður var Lúðvík Schou Emilsson, búfræðingur, og honum til aðstoðar var Friðrik Jónasson frá Breiðavaði, þá 12 ára gamall, síðar kennari í Reykjavík og víðar.
Aukin stærð matjurtagarða stafar m.a. af því, að vorið 1917 var gerður allstór sáðgarður sunnan við Lambhúsin. Hallaði honum mikið til suðurs niður hólbrekkuna. Var hann þannig í skjóli fyrir norðanáttinni, og fékkst oft úr honum góð kartöfluuppskera.
Sú aukning túns, sem virðist hafa orðið á aðeins tveimur árum, verður varla skýrð á annan hátt en að önnur hvor talan frá árunum 1917 og 1919 sé röng, sennilega þá hin fyrri, sem gæti hafa verið enn eldri.
Lokaorð
Við þessa bæjar- og húsalýsingu hefi ég notið aðstoðar Guðlaugar, systur minnar. Höfum við jafnan borið saman bækur okkar um flest, sem máli skiptir. Guðlaug er tíu árum eldri en ég, fæddist árið 1895, og man því lengra aftur í tímann en ég og er mér miklu fróðari um margt, sem hér er fjallað um, enda stálminnug ennþá. Hún man margt frá gömlum tíma, sem ég vissi ekki áður eða mundi ekki, bæði það sem hún reyndi sjálf og það sem henni var sagt ungri. Guðlaug var tíu ára gömul, þegar gömlu baðstofunni í Gunnhildargerði var lyft, hún rétt af og aukið við hana einu stafgólfi árið 1905. Man Guðlaug vel þær framkvæmdir. Þakka ég henni allan stuðning við þessa ritsmíð, sem hefur verið mér ómetanlegur.
Fáein atriði hefi ég ennfremur borið undir mágkonu mína, Önnu Ólafsdóttur, ekkju Jóns bróður míns, en þau Jón og Anna bjuggu í Gunnhildargerði frá árinu 1926. Þakka ég Önnu það, sem hún hefur lagt til mála.
Ennfremur þakka ég sonum mínum þrem þeirra hlut, Rúnari, sem gerði teikningar af bænum, og Baldri, sem vélritaði handrit og ásamt Sigmundi las það yfir og benti á atriði, sem betur máttu fara.
Framanskráð lýsing gamla bæjarins í Gunnhildargerði og gripahúsa þar finnst mér hefði þurft að vera bæði betri og nákvæmari, en þá hefði þetta orðið lengra mál en ég ætlaði í upphafi. Sérstaklega torveldaði það verkið, að sléttað hefur verið yfir allt bæjarstæðið.
Heimildaskrá
Gjörðabók fasteignamatsnefndar í Norður-Múlasýslu 1917 og 1918 (Jarðamat 1918 eða „F18“). Hænir, 3. árg. , 29. tbl. , Seyðisfirði 11. júlí 1925. Jarða- og ábúendatal í Norður-Múlasýslu 1732. Jarðatal á Íslandi, gefið út af J. Johnsen, Kaupmannahöfn 1847.
Kort af túninu í Gunnhildargerði, gert af Lúðvík Schou Emilssyni árið 1919.
Landamerki Nefbjarnarstaða með afbýlinu Gunnhildargerði, þinglýst 1890.
Ljóðmæli eftir Pál Ólafsson, II. bindi, Reykjavík 1900, útg. Jón Ólafsson.
Manntal 1. október 1880 í Norður-Múlasýslu.
Ný jarðabók fyrir Ísland, Kaupmannahöfn 1861. Óðinn, 21. árg., bls. 47 og 48, Reykjavík 1925. Prestatal og prófasta á Íslandi, 2. útg., Reykjavík 1949.
Prestsþjónustubók Eydala.
Prestsþjónustubók Kirkjubæjar í Hróarstungu. Sóknarmannatal Eydala.
Sóknarmannatal Kirkjubæjar í Hróarstungu.
Sveitir og jarðir í Múlaþingi, 1. bindi, Seltjarnarnesi 1974.
l Sérkennileg baðstofa; auðvitað prentvilla, 16 eiga að vera 6.
2 Eydalir, nú nefndir Heydalir.
3 Á Fljótsdalshéraði var vesturátt (eða vest-norðvestur) yfirleitt nefnd „norður“; en sjálf norðuráttin (eða norðnorðaustur) „út“.