Guðrún Sigmundsdóttir

Hjónin Guðmundur Halldórsson og Guðrún Sigmundsdóttir á Dratthalastöðum

Guðrún var næstelst af systkinunum í Gunnhildargerði, fædd 14.júlí 1885.  Hún dvaldist í foreldrahúsum sín æskuár.  Skólaganga ver ekki löng, þó lærði hún karlmannafatasaum á Seyðisfirði (hjá Guðrúnu Gísladóttur, á saumastofu Eyjólfs  Jónssonar), auk venjulegs barnalærdóms.  Hún gekk strax, þegar geta leyfði, í öll verk á heimilinu, og varð það henni hagnýtur skóli fyrir ævistarfið.   Árið 1909 giftist hún Guðmundi Halldórssyni frá Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá, búfræðingi frá Eiðum, hinum mesta myndar manni.

Sjálfstæðan búskap hófu þau á Unaósi árið 1910, og bjuggu þar í þrjú ár.   Árið 1913 fluttu þau í Dratthalastaði og bjuggu þar allan sinn búskap eftir það. Fyrst sem leiguliðar, en árið 1915 keyptu þau jörðina.   Á árunum 1910 – 1922 eignuðust þau hjónin sex mannvænleg börn: Halldór, f. 15. Nóv. 1910, Sigmundur f. 12. Jan. 1912, Guðrún Ingibjörg, f. 22. feb. 1914, Sigfríð Jóhanna, f. 17. apríl 1916, Kristbjörg Málfríður, f. 24. feb. 1919, Stefán Björgvin, f. 17. júní 1922.

Dratthalastaðir voru á þessum árum lítil og kostarýr jörð.  Búskapurinn gekk þó til réttrar áttar með samstilltu átaki fjölskyldunnar.  Árið 1925 veiktist Guðmundur mjög alvarlega og lá um tíma rúmfastur, og eftir það náði hann aldrei fullu starfsþreki.  Nokkrum árum síðar fór  að gæta hjá honum sjóndepru, en á fáum árum leiddi til algjörs sjónleysis.  Stundaði hann þó áfram smíðar, enda var hann hagleiksmaður hinn mesti bæði á tré og járn, og átti mikið og gott safn verkfæra.

Gamli bærinn á Dratthalastöðum

Nú stóð Guðrún ein uppi sem aðalfyrirvinna heimilisins, elsta barnið aðeins 15 ára og það yngsta þriggja ára.  Þegar litið er um öxl og bornar saman þær aðstæður sem voru og nú, á tímum almennra trygginga, lífeyrissjóða og annara félagslegra umbóta, þá er manni lítt skiljanlegt hvernig henni tókst að leyst það verkefni af hendi, er beið hennar.  Þetta gekk þó allt vonum framar, enda Guðrún óvenju dugleg og stjórnsöm kona og börnin öll af vilja gerð til hjálpar eftir því sem kraftar leyfðu.

Þannig gekk búskapurinn á Dratthalastöðum til ársins 1935 að tveir eldri bræðurnir,  Halldór og Sigmundur, tóku formleg við búinu og ráku á eigin ábyrgð undir nafninu Bræðrabúið á Dratthalastöðum.  Móðir þeirra var áfram bústýra innanstokks, og hin systkinin hjálpuðu til eftir því sem þörf krafðist  Á þessum árum breyttu Dratthalastaðir mikið um svip, frá að vera smábýli upp í að vera ein af betri jörðum sveitarinnar, enda rekið þar eitt stærsta búið.

Árið 1942 verður Guðrún fyrir þeirri þungbæru sorg að missa eiginmann sinn og tæpu ári síðar Kristbjörgu dóttur sína í blóma lífsins.  Að vonum reyndu dauðsföll þessi mjög á alla fjölskylduna, einkum þó á Guðrúnu.  Bræðrabúið á Dratthalastöðum var rekið til ársins 1948.  Þeir bræður Halldór og Sigmundur höfðu nokkrum árum áður fest kaup á jörðinni Klúku, þar sem heimajörðin var orðin of lítil til þess að gera bú fjölskyldunnar og þeirra.

Árið 1948 festi Halldór ráð sitt, og gekk að eiga Guðrúnu Björnsdóttur frá Surtsstöðum.  Þá var búinu á Dratthalastöðum skipt.  Sigmundur hélt áfram búskap á föðurleifðinni ásamt Stefáni bróður sínum, sem einnig rak þar sérstakan búrekstur, að nokkru í samvinnu við bróður sinn.  Móðir þeirra var áfram bústýra innanstokks.  Halldór flutti í Klúku og bjóð þar síðan allan sinn búskap.  Nú voru þau aðeins orðin þrjú eftir heima á Dratthalastöðum, bræðurnir Sigmundur og Stefán ásamt móður sinni, þar sem hin systkinin voru flutt burtu og búin að stofna sín eigin heimili.

Búið á Dratthalastöðum var rekið áfram með mesta dugnaði, byggt og ræktað.  Árið 1959 fellur Sigmundur frá eftir stutta en mjög erfiða sjúkdómslegu.  Þetta nýja dauðsfall reyndi að vonum mjög á fjölskylduna, að missa dáðan bróður og son á besta aldri.  Af skiljanlegum ástæðum var missir móðurinnar mestur, en Guðrún var gefið mikið líkamlegt og andlegt þrek, enda mjög trúuð kona.  Stefán, yngsti sonurinn, hélt áfram búskapnum á Dratthalastöðum og var hún ráðskona hans uns hann kvæntist Hallveigu Guðjónsdóttur frá Heiðarseli.

Guðrún var óvenju reglusöm kona, hver hlutur alltaf á sínum stað.  Umgengni öll innanhúss sem utan til hreinnar fyrirmyndar.  Með slíkri umgengni tókst henni að gera litlu húsakynnin sín að óvenju aðlagandi hýbýlum.  Dratthalastaðaheimilið var sérstaklega skemmtilegt heim að sækja, þar fór saman hlýlegt viðmót heimilisfólksins og rausnarleg og snyrtilega fram bornar veitingar, enda Guðrún rómuð matmóðir og hafði sérstakt lag á að búa til góðan mat.  Guðrún var glaðsinna og félaglynd kona og alltaf boðin og búin til að gera nágrönnunum greiða.

Hún var ein af stofnendum kvenfélagsins Bjarkar og mjög virkur félagi þess.  Á sjötugsafmælinu heimsóttu félagsystur hana og færðu afmælisgjöf og skrautritað skjal, sem á er ritað að hún hafið kosin heiðursfélagi kvenfélagsins Bjarka, Með þessu vildu þær tjá henni þakklæti sitt fyrri vel unnin störf í þágu kvenfélagsins og samborgaranna.

Guðrún bar hag og velferð alls síns fólks og mjög fyrir brjósti.  Hún hafði sérstakt yndi af barnabörnum sínum og naut af að gleðja þau.  Guðrún var heilsuhraust, þar til síðustu ár ævi sinnar að hún fór að kenna nokkurs lasleika, þó hélt hún reisn sinni að mestu óskertri allt til síðustu stundar.  Hún varð bráðkvödd heima á Dratthalastöðum 12, nóvember 1964.   Í hugum þeirra er næst henni stóðu var hún hetjan, sem vann fullan sigur í lífsbaráttunni.

Sigurður Karlsson, Laufási, ritaði.