Björg Sigmundsdóttir

BjorgSigmundsdottirOgStefanSigurdssonLitil

Hjónin Stefán Sigurðsson og Björg Sigmundsdóttir

Björg Sigmundsdóttir var fædd 13. mars árið 1884 að Gunnhildargerði í Hróarstungu. Foreldrar hennar voru hjónin Sigmundur Jónsson og Guðrún Ingibjörg Sigfúsdóttir. Var Björg elst af tíu börnum þeirra og var á orði haft, að þau systkini væru óvenulega glæsilegur hópur. Þau Gunnhildargerðishjón voru líka orðlögð fyrir dugnað og mannkosti – og má segja að Björg hafi tekið í arf alla góða eiginleika foreldra sinna. Foreldrar Bjargar tóku heimiliskennara og hefur Bjrg búið að því. Hún skrifaði til dæmis fallega rithönd og las bækur á Norðurlandamálum, þó óefað hafi besta veganestið að heiman verið frá móður hennar, sem þótti bera af sem hagsýn og góð húsmóðir, auk þess sem hún var gædd óvenjulegri drenglund. Og það voru einmitt þessir eiginleikar móður hennar sem einkenndu Björgu og allt hennar lífsstarf.
Árið 1906, 4. ágúst, giftist Björg Stefáni Sigurðssyni, trésmíðameistara frá Geirastöðum. En hann var þá orðinn bóndi á Sleðbrjót í Jökulsárhlíð. Og á Sleðbrjót átti hún heimili frá þeim degi til æviloka. Sleðbrjótur er í miðri sveit, þar voru því haldnir hreppsnefndarfundir og fundir í ýmsum félögum og skemmtanir. Stefán var hreppstjóri, svo margir áttu við hann erindi. Á þessum árum var Sleðbrjótur í þjóðbraut, þar sem Stefán sá um lögferju á Jökulsá. Ævistarf Bjargar varð því húsfreyjustaða á mannmörgu sveitaheimili, þar sem gestkoma var mikil – þar þótti líka sjálfsagt að greiða fyrir ferðamönnum án endurgjalds, enda gestrisni mikil hjá þeim hjónum og orðlagt hvað gott væri að koma á heimili þeirra. En oft hefur þá reynt á hina ungu húsmóður að sjá fyrir öllu svo vel færi, en það var einmitt það sem Björg gerði, þess vegna var heimilið ríkt þó ekki væri auður í garði.

sledbrjotur_bjorgsigmunds_img_4394_minni

Sleðbrjótur í Jökulsárhlíð.

Fyrstu kynni mín af Björgu voru er ég, sem drengur, var sendur með símskeyti eða annarra erinda til Stefáns hreppstjóra. Ég man hvað gott var að koma í eldhúsið til hennar og fá góðgerðir. Mér fannst hún alltaf taka á móti mér eins og ég væri höfðingi. Mörgum árum síðar, er ég átti því láni að fagna að kynnast henni betur, vissi ég að svo hefði hún tekið á móti öllum, sem á heimili hennar komu.
Ég held að sönnustu lýsingu á Björgu sé að finna í ræðu, sem séra Sigurjón Jónsson á Kirkjubæ flutti við útför hennar. Hann var búinn að vera prestur hennar í 32 ár. Og eftir að kirkja var byggð á Sleðbrjót 1926, átti hann oft erindi á heimli hennar. Og ætla ég að birta eftirfarandi kafla úr ræðunni: „Með Björgu má óhætt segja að horfin sé af starfsvelli lífsins ein af mætustu mæðrum og húsfreyjum þessa lands. Var hún þó ekki auðug að skólavottorðum. En hún var ríkari að mörgu því sem skólavottorð ættu að sýna, en sýna ekki. Heimli sínu stjórnaði hún til dæmis betur en margar kynsystur hennar er sýnt gátu hússtjórnarskilríki á stimpluðum prófvottorðum. Háttprýði hennar mun þá heldur ekki hafa verið haldminni en margra þeirra, sem verðlaun hafa hlotið fyrir sama kostinn á skólabekk. Skólar gefa að vísu oft góða fræðslu í ýmsum greinum þekkingarinnar. En þeir eru því miður ekki þess umkomnir að skapa það, sem skapa þarf: mannkosti, svo sem góðvild, hógværð, bið og blíðlund, fegurðarþrá, hjartahreinleika, ró, sem engar ytri öldur geta raskað – frið við Guð og menn. Það er aðeins einn skóli til, sem getur útskrifað slíka nemendur, það er skóli Guðs – skóli lífsins. Sá skóli leggur ekki fyrst og fremst áherslu á fræðilegt nám – jafnvel kallar ekki eftir þekkingu í fræðum Lúters, hvorki þeim meiri eða minni. Hann kennir líf og sýnir hvernig því skuli lifað. Sannmenntaðasti nemandinn kemur jafnan frá þessum skóla. Enda mun eftirskin ævi hans verða bjartara en margra annarra, enda þótt þeir hafi hlotið doktorsgráðu í einhverjum fræðilegum vísindum. Björg Sigmundsdóttir var útskrifuð úr þessum skóla. Enda var hún í rauninni kona sannmenntuð af Guðs náð. Það eru til margir sáðmenn og sumir dreifa fræi sínu vítt um án þess að hnitmiða hvar þau falla. Þegar svo stendur á falla sum þeirra í grýttan jarðveg eða á klappir og bera því engan ávöxt… Aðrir dreifa ástúð og hamingju umhverfis sig. AÐ líta yfir akra sem þannig hefur verið sáð til, þar sem vænta má hundraðfaldrar uppskeru leiðir að sýn, sem er fegurri en nokkur orð fá lýst. Sá sem nokkur kynni hafði af hinni látnu móður mun ekki vera í hinum minnsta vafa um það að hún var ein í hópi þeirra sem sáði til bjartrar uppskeru, því að hvar sem spor hennar lágu um leiðir samfélagsins dreifði hún út frá sér góðvild, yl og yndi og eftirlét þess vegna fagra fyrirmynd.“
Hér lýkur tilvitnun í ræðu hins gáfaða Kirkjubæjarprests, Sigurjóns Jónssonar. En hann þekkti Björgu Sigmundsdóttur mjög vel. Þeir af sveitungum og vinum, sem minntust hennar, blessuðu hana fyrir hjartahlýju og að hún hefði huggað sjúka og sorgmædda og hjálpað þeim, er erfitt áttu. Enda var vinsæld hennar með eindæmum. Sjálf varð hún fyrir þeirri þungu sorg að missa eiginmann sinn eftir 25 ára ástríka sambúð árið 1931. En þá var líka gæfa hennar að eiga góð börn, sem virtu hana og elskuðu, enda hafði hún fórnað þeim öllu sem góð móðir.
Börn þeirra Stefáns og Bjargar voru: Magnhildur, húsfreyja í Grófarseli, Sigurður, bóndi á Breiðumörk, Guðrún, húsfreyja í Hofteigi og Geir, bóndi á Sleðbrjót.
Einnig ólust upp hjá þeim að miklu leyti Frímann Jakobsson, systursonur Stefáns, fyrrum bóndi í Krossavík í Vopnafirði, sem nú er látinn, og Inga Pétursdóttir, systurdóttir Bjargar.
Að endingu eru hér tilfærð tvö erindi úr erfiljóði eftir Björgu – eftir Kristin Arngrímsson, bónda og kennara, Bakkagerði:

2) Fyrir alúð
auðsýnda
og góðvild mínum og mér
skal fátæklegt blóm
bundins máls
leggja við leiði þitt.

4) Sakna nú sveitungar
sæmdar konu
minnugir margra stunda
er áttu þeir góðar
að þínu heima
mættir á mannfundi.

Það er bjart yfir minningu Bjargar Sigmundsdóttur og mun eftirskin ævi hennar lýsa til blessunar um langa tíð.

Karl Gunnarsson

1a Björg Sigmundsdóttir, f. 13. mars 1884 í Gunnhildargerði, d. 26. febr. 1952 á Sleðbrjót, Jökulsárhlíð, hfr. á Sleðbrjót, form. Kvenfélags Hlíðarhrepps, starfaði mikið að félagsmálum, stóð fyrir búi eftir lát manns síns ásamt sonum sínum. – M. 4. ágúst 1906, Stefán Sigurðsson, f. 6. júní 1875 á Geirastöðum í Hróarstungu, d. 21. júlí 1931 í Rvík, bóndi og hrstj. á Sleðbrjót. Foreldrar: Sigurður Einarsson, bóndi á Geirastöðum í Hróarstungu, f. um 1830, d. 1890, og k.h. Guðrún Oddsdóttir, f. 6. júní 1851, d. 1890. Börn þeirra: a) Magnhildur Guðlaug, f. 20. maí 1907, b) Sigmundur Sigurður, f. 23. des. 1909, c) Guðrún Ingibjörg Sólveig, f. 14. júní 1913, d) Guðmóður Geir, f. 19. júlí 1915.