Anna Sigmundsdóttir

AnnaSigmundsdottirOgJonJonassonLitil

Anna Sigmundsdóttir og Jón Gunnlaugur Jónasson

Anna Sigmundsdóttir var fædd 24. janúar 1888 í Gunnhildargerði í Hróarstungu. Var hún fjórða í aldursöð af tíu og ólst hún upp í foreldrahúsum.

Gunnhildargerðisheimilið var á þessum tíma þekkt fyrir myndarskap og menningarbrag, svo Anna hlaut þar góðan undirbúning fyrir lífsstarf sitt, sem var húsmóðurstarf, eins og séra Erlendur Sigmundsson kemst að orði í minningargrein um hana: „Hún hefur því verið húsmóðir á Seyðisfirði röska hálfa öld og stjórnaði einu myndarlegasta heimili á Austurlandi, kunnu að reglusemi, hollum lífsvenjum og menningarbrag.“

Veturinn 1906-1907 var Anna við nám á Seyðisfirði. Fyrri hluta vetrar lagði hún stund á bóklegt nám og hannyrðir hjá Þorbjörgu Einarsdóttur Thorlacius, en seinni hluta vetrarins lærði hún kjólasaum hjá Jóhönnu Jónsdóttur í Jónshúsi. Næsta vetur (1907-1908) fer Anna til Reykjavíkur í hússtjórnarskóla Hólmfríðar Árnadóttur í Iðnó. Að námi loknu þar fer hún á Hvanneyri og dvelur þar nokkra mánuði á vegum Þorbjargar Björnsdóttur ráðskonu þar. Var Þorbjörg vinkona Guðrúnar, móður Önnu.
Veturinn, sem Anna var við nám á Seyðisfirði, kynntist hún manni sínum, Jóni G. Jónassyni, Eiríkssonar skólastjóra á Eiðum, f. 17. júní 1851, d. 19. ágúst 1924, og konu hans Guðlaugar Margrétar Jónsdóttur, f. 30. júní 1853, d. 26. maí 1906. Jón var fæddur 5. febrúar 1883. Þegar þau Anna og Jón kynntust hafði hann auk búfræðiprófs á Eiðum lokið námi í málaraiðn í Bergen í Noregi 17. sept. 1903 og var hann fyrsti Íslendingurinn sem lauk prófi í þeirri iðngrein. 1)  Þau gengu í hjónaband 25. sept. 1908 og var brúðkaup þeirra haldið á Breiðavaði, þar bjó þá Jónas faðir Jóns. Búskap hófu þau á Seyðisfirði í gamla skólanum og bjuggu þar til ársins 1930. Þá kaupa þau húseignina Framtíðina á Norðurgötu 2, og var það þá fremur nýlegt og á þeirra tíma vísu nokkuð stórt verslunarhús. Þar bjuggu þau hjón til æviloka.
Ásamt störfum við iðngrein sína, hóf Jón verslunarrekstur á Seyðisfirði. Í fyrstu verslaði hann aðallega  með veggfóður og málningarvörur. En verslunarreksturinn varð fljótt umfangsmeiri og eftir að þau fluttu í hús sitt á Norðurgötu 2, verslaði Jón með fjölbreytt vöruúrval. Hjálpði Anna til við verslunarstörfin ef með þurfti og síðar fjölskyldan öll. Þau hjón eignuðust 5 börn. Elstu dóttur sína, Guðlaugu Margréti, f. 25. júlí 1909, misstu þau á barnsaldri. Hún lést  25. apríl 1915. Hin börnin voru Sigrún, f. 10. júní 1911, d. 13. apríl 1972, Jónas, f. 30. ágúst 1912, Guðlaugur, f. 2. júní 1915 og Herdís, f. 2. mars 1921. Þá ólu þau upp frá 11 ára aldri Guðrúnu M. Sigfúsdóttur, systurdóttur Önnu.
Anna var vel gefin kona bæði til munns og handa. Hún víkkaði sjóndeildarhringinn með lestri góðra bóka og fylgdist vel með því sem gerðist í samtíðinni. Anna var mjög vel verki farin, hafði næmt listrænt auga fyrir að fegra og prýða umhverfi sitt eins og heimili hennar bar ljósan vott um. Fór þar saman hög hönd smekkvísi og reglusemi húsmóðurinnar í hvívetna svo af bar. Anna lærði eins og fyrr segir kjólasauma á yngri árum og fékkst hún töluvert við að sauma kjóla, þó aðallega fyrir fjölskyldu sína og einnig nutu frændkonur hennar og fleiri góðs af. Voru margir þessir kjólar listavel gerðir og þeim sem áttu þá ógleymanlegir. Anna var glæsileg kona, vel vaxin, há og grönn á yngri árum. Hún var ljóshærð og björt yfirlitum, hafði tiginmannlegt fas og var hrein og bein í framkomu og í samskiptum við aðra.
Anna var mannkosta- og rausnarkona. Munu ýmsir fátækir samferðarmenn hennar hafa átt hauk í horni þar sem hún var og voru þau hjón samtaka í þessu sem öðru, en ekki var haft hátt um þessa hjálpsemi þeirra.
Anna var bæði gestrisin og frændrækin og var því oft gestkvæmt á heimili hennar. Hún var félagi í kvenfélaginu Kvikk á Seyðisfirði um ára bil.
Anna missti mann sinn 7. janúar 1964 eftir langvarandi veikindi, sem hún hjúkraði honum í, af alúð og natni. Hún andaðsti 2. september 1965. Prestur hennar, séra Erlendur Sigmundsson, segir um hana í áðurnefndri minningargrein: „Lengst mun frú Önnu verða minnst fyrir mannkosti og dyggðir. Trúfræðin og siðfræðin, sem hún nam í sveit sinni hafa verið henni gott veganesti og hún hefur numið þau fræði af alvöru og alúð, því að sæmd og heiður einkenndu hana alla ævi.“

  1. Sjá Íslenskir málarar, brot úr sögu þeirra og málaratal, síðara bindi, Reykjavík 1982, bls. 337.

1d Anna Sigmundsdóttir, f. 24. jan. 1888 í Gunnhildargerði, d. 2. sept. 1965 á Seyðisfirði, hfr. Seyðisfirði. – M. 25. sept. 1908, Jón Gunnlaugur Jónasson, f. 5. febr. 1883 að Eiríksstöðum á Jökuldal, d. 7. jan. 1964 á Seyðisfirði, málarameistari og kaupmaður á Seyðisfirði. For.: Jónas Eiríksson, skólastjóri á Eiðum, f. 17. júní 1851, d. 19. ágúst 1924, og k.h. Guðlaug Margrét Jónsdóttir, f. 30. júní 1853, d. 26. maí 1906. Börn þeirra: a) Guðlaug Margrét, f. 25. júlí 1909, b) Sigrún, f. 10. júní 1911, c) Jónas, f. 30. ágúst 1912, d) Guðlaugur, f. 2. júní 1915, e) Herdís, f. 2. mars 1921.